27 Október 2011 12:00
Karl á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. nóvember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna aðildar að vopnuðu ráni í úraverslun á Laugavegi í Reykjavík í síðustu viku. Maðurinn, sem er pólskur, var handtekinn í gær en í bíl sem hann hafði til umráða fannst allur ránsfengurinn, nokkrir tugir úra. Þrír samlandar hans frömdu ránið en þeir komust úr landi morguninn eftir verknaðinn og eru nú eftirlýstir. Ræningjarnir og vitorðsmaður þeirra höfðu verið á landinu í eina viku þegar ránið var framið en hlutverk þess sem nú er í haldi virðist hafa verið að taka við ránsfengnum og koma honum úr landi.
Rannsókn lögreglu á ráninu hefur verið umfangsmikil. Leitað var upplýsinga hjá ýmsum aðilum en lögreglan naut einnig aðstoðar tollgæslu og embættis ríkislögreglustjóra. Aðstoð allra þessara aðila skipti miklu máli við rannsókn málsins.