14 September 2015 14:03
Einn maður gisti fangageymslu lögreglunnar á Ísafirði aðfaranótt 10. september sl. Hann hafði verið handtekinn um nóttina vegna ölvunar og óláta.
Mánudaginn 7. september barst lögreglunni tilkynning um að brotist hafi verið inn í kirkjuna á Hólmavík og brotinn upp söfnunarbaukur sem þar var veggfastur í anddyrinu. Úr honum hafði verið stolið gjafafé sem kirkjugestir hafa lagt til að undanförnu. Ekki er þó talið að um mikla fjármuni hafi verið að ræða. Líklega hefur verknaðurinn átt sér stað þann 4. september sl. Lögreglan þiggur ábendingar eða upplýsingar frá öllum þeim sem kunna að búa yfir slíku um verknaðinn, grunsamlegar mannaferðir eða annað sem kann að skipta máli við rannsókn málsins.
Aðfaranótt 13. september stóðu lögreglumenn ungann mann að því að kasta glerglasi á almannafæri í miðbæ Ísafjarðar þannig að það brotnaði. Höfð voru afskipti af manninum vegna athæfisins, enda brot á lögreglusamþykkt Ísafjarðarbæjar að valda slíkum óhreinindum sem af þessu háttarlagi varð. Maðurinn má búast við sekt vegna athæfisins.
Tvær tilkynningar bárust í vikunni um að ekið hafi verið á kindur í umdæminu.
Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp, utan þess er ekið var á kindurnar tvær. Það óhapp varð þegar erlendur ferðamaður missti stjórn á bifreið sinni á Örlygshafnarvegi þannig að hún lenti utan vegarins. Engin meiðsl hlutust af þessu óhappi en bifreiðin var óökuhæf.
Sex ökumann voru kærðir í vikunni fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru mældir í Ísafjarðardjúpi.