4 Júlí 2016 11:39
Ungur karlmaður gisti fangaklefa á Ísafirði aðfaranótt 28. júní en hann lét ófriðlega og neitaði að fara að fyrirmælum lögreglunnar. Hann var látinn hvíla sig og sleppt lausum þegar af honum var runnin víman. Þegar hann var orðinn allsgáður baðst hann afsökunar á framferðinu. Batnandi mönnum er best að lifa.
Ekið var á alls 12 kindur í liðinni viku í umdæminu, skv. tilkynningum sem lögreglu bárust. Atvikin gerðust flest í Dýrafirði og Önundarfirði. Enn eru eigendur búfjár hvattir til að reyna allt til að tryggja að búfé sé ekki við eða á vegum. Sömuleiðis eru ökumenn hvattir til að aka með varúð.
Nú um helgina var lögreglan á Vestfjörðum og áhöfnin á varðskipinu Þór í samstarfi varðandi eftirlit með bátum sem siglt var um Ísafjarðardjúp. Höfð voru afskipti af fjórum smábátum. Allt virtist vera í lagi með alla þessa báta utan einn þeirra. Grunur leikur á að sá bátur hafi verið notaður til farþegaflutninga, gegn gjaldi, án þess að tilskilin leyfi liggi fyrir. Þá virðist sem svo að lögskráningu hafi verið ábótavant.
Ökumaður, sem ók bifhjóli eftir götum Patreksfjarðar, var sektaður í vikunni fyrir að nota ekki viðurkenndan hjálm.
Tveir ökumenn voru kærðir í vikunni fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Annar var stöðvaður á Ísafirði en hinn í Bolungarvík.
51 ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Þessir ökumenn voru stöðvaðir víðs vegar í umdæminu. Einn þeirra var stöðvaður á Skutulsfjarðarbraut á 116 km hraða, en þar er hámarkshraði 60 km. Slíkt brot hefur í för með sér 80.000 kr. sekt og a.m.k. eins mánaðar ökuleyfissviptingu. Ekki ætti að þurfa að minna á hættuna sem slíkur ökuhraði skapar.
Tilkynnt var um 6 umferðaróhöpp í liðinni viku. Engin alvarleg meiðsl hlutust á ökumönnum eða farþegum.
Skemmtanahald var víðs vegar í umdæminu um helgina. Nefna má Hamingjudaga á Hólmavík, báta- og hlunnindasýningu á Reykhólum, Dýrafjarðardaga á Þingeyri, Markaðsdaga í Bolungarvík og loks Flæðareyrarhátíðina í Jökulfjörðum. Allar þessar samkomur fóru vel fram.
Lögreglunni á Vestfjörðum hafa borist ábendingar í gegnum facebooksíðuna um ýmislegt sem betur mætti fara í umferðinni, s.s. að ökuhraði sé of mikill á ákveðnum götum víðs vegar á Vestfjörðum. Lögreglan þakkar fyrir þessar ábendingar og mun eftir fremsta megni bregðast við þeim með auknu eftirliti og hraðamælingum. Ökumenn eru sömuleiðis hvattir til að virða gildandi hraðatakmörk. Slíkt mörk eru gerð í þágu umferðaröryggis, ekki síst gagnvart gangandi vegfarendum sem oft eru ekki háir í loftinu og oft að feta sín fyrstu spor í umferðinni, gangandi eða hjólandi.