29 Mars 2016 17:23
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna sl. viku. Annar stöðvaður um miðjan dag 21. mars og hinn 28. mars, báðir á Ísafirði.
Alls voru 72 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða ofangreint tímabil. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi utanvert og innanvert en einnig í Strandasýslu.
7 ökumenn sem lögreglan hafði afskipti af í vikunni voru ýmist með útrunnin ökuréttindi eða höfðu ekki öðlast þau.
Tilkynnt var um að einhver hafi brotist inn á vinnustað við Stekkjargötu í Hnífsdal og ekið lyftara sem þar var innandyra með þeim afleiðingum að skemmtir urðu á húsnæðinu. Þetta mun hafa orðið aðfaranótt 28. mars. Málið er til rannsóknar.
Eitt fíkniefnamál kom upp í liðinni viku en þá fundust fíkniefni á flugfarþega sem var að koma frá Reykjavík til Ísafjarðar. Hann reyndist með hátt í 20 grömm af fíkniefnum, bæði ætluðu amfetamíni sem og öðrum tegundum. Það var fíkniefnaleitarhundurinn Tindur sem aðstoðaði lögreglumenn við þessa leit.
Tilkynnt var um eignaspjöll á tveimur húsum á Ísafirði eftir helgina. Í báðum tilvikunum var um að ræða svk. veggjakrot, eða grænnimálningu var úðað á húsveggi tveggja húsa. Mál þessi eru til rannsóknar og óskar lögreglan eftir upplýsingum um gerendur hjá þeim sem kunna að búa yfir slíku. Þá var lögreglunni tilkynnt um skemmdir hafi verið unnar á mannlausri bifreið sem stóð á bifreiðastæði við Hlíðarveg nr. 26 á Ísafirði, aðfarnótt 24. mars sl. Bifreiðin, sem er blágrá Skoda Oktavia, var skemmd með oddhvössum hlut, þ.e.a.s. lakk hennar var rispað og meðal annars skrifað nafnið ANNA á bifreiðina með þessum hætti. Hér er um tilfinnanlegt fjárhagstjón að ræða. Lögreglan óskar eftir upplýsingum frá þeim sem kunna að geta gefið upplýsingar um þennan verknað.
Ein kynferðisbrotakæra hefur borist lögreglunni. Hún varðar atburð sem talinn er hafa orðið í miðbæ Ísafjarðar aðfaranótt 25. mars. Það mál er til rannsóknar. Lögreglan óskar eftir upplýsingum vitna sem kunna að búa yfir upplýsingum um þennan atburð.
Ein líkamsárásarkæra barst vegna atviks sem talinn er hafa orðið á veitingahúsi á Ísafirði aðfaranótt 27. mars. Gestur veitingahússins er talinn hafa ráðist að dyraverði þess.
Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp sem öll urðu á veginum yfir Steingrímsfjarðarheiði. Fyrsta óhappið varð þann 24. mars þegar ökumaður missti stjórn á bifreiði sinni er komið var inn á vegarkafla þar sem krap var á yfirborðinu. Bifreiðin rann út af veginum og valt. Ökumaður og farþegar voru fluttir á heilsugæslustöðina á Hólmavík en reyndust ekki alvarlega slasaðir. Annað óhappið varð þann 27. mars en einnig sá ökumaður missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún rann út af veginum og valt. Ökumann eða farþega sakaði ekki. Þriðja óhappið varð síðan þann 28. mars þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í krapa á veginum og endaði sú bifreið eins og þær fyrri utan vegar og í veltu. Ökumann og fjóra farþega sakaði ekki enda allir spenntir í öryggisbelti.
Um miðjan dag þann 28. varð slys á Dynjandisheiði þegar ökumaður vélsleða missti vald á sleða sínum í brattri brekku með þeim afleiðingum að ökumaðurinn féll af sleðanum og sleðinn valt yfir hann. Björgunarsveitarmenn úr nágrenninu fóru þá þegar á vettvang ásamt lögreglumanni. Ökumaðurinn, sem hlaut alvarlega áverka á höfði, var fluttur af heiðinni og niður á þjóðveg og ekið þangað sem þyrla Landhelgisgæslunnar lenti, eða við Flókalund. Ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík. Hann er ekki í lífshættu.
Rokkhátíðin „Aldrei fór ég suður“, sem haldin var tvö kvöld á Ísafirði, þ.e.a.s. 25. og 26. mars sl. var fjölsótt. Yfirbragð tónleikahaldsins var til fyrirmyndar og aðstandendum öllum til mikils sóma. Góð gæsla var á þessum fjölmenna mannfagnaði, bæði hálfu tónleikahaldara og lögreglu. Engin óhöpp, pústrar eða önnur vandræði urðu í tengslum við þessa hátíð.
Það er gleðilegt að ekki urðu fleiri umferðaróhöpp á vegum í umdæminu en þau sem ofan greinir sérstaklega í ljósi þess mikla fjölda ferðafólks sem fór um svæðið.