27 Júní 2016 13:28
Einn ökumaður vöruflutningabifreiðar var stöðvaður á Ísafirði í liðinni viku, en bifreiðin reyndist yfir leyfilegum þyngdarmörkum.
Lögreglan hafði afskipti af bifreið einni, sem ekið var á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði að kveldi 21. júní sl. Við skoðun kom í ljós að einn farþega bifreiðarinnar hafði komið sér fyrir í farangursrýminu. Sá má búast við sekt fyrir athæfið.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis- og fíkniefna í vikunni. Um var að ræða ungan ökumann svk. vespu um götur Ísafjarðar aðfaranótt 26. júní. Auk þess var ökumaðurinn hvorki með réttindi né hjálm á höfði við aksturinn.
Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í liðinni viku. Eitt þeirra varð um miðjan dag þann 20. júní þegar ökumaður fólksbifreiðar ók utan í vegg jarðganganna undir Breiðadals- og Botnsheiði. Ástæðan virðist vera sú að ökumaður sofnaði undir stýri með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, hlaut ekki alvarleg meiðsl en var fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Bifreiðin var óökufær á eftir.
Þá valt fólksbifreið út af veginum skammt í Svínadal, Arnarfjarðarmegin við Dynjandisheiði aðfaranótt 23. júní. Auk ökumanns voru þrír farþegar í bifreiðinni. Engan sakaði en bifreiðin var óökufær eftir atvikið.
Þriðja óhappið varð á Innstrandavegi í Strandasýslu um miðjan dag þann 23. júní þegar ökumaður bílaleigubifreiðar missti stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að bifreiðin rann út af veginum og valt. Ökumaður og farþegi voru fluttir á heilsugæslustöðina á Hólmavík en reyndust ekki hafa hlotið alvarleg meiðsl. Bifreiðin var óökufær eftir óhappið.
Alls voru 41 ökumaður kærður fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í liðinni viku. Flestar þessara hraðamælinga fóru fram í Strandasýslu og í Ísafjarðardjúpi. En einnig í Reykhólasveit, á Barðaströnd og í Ísafjarðarbæ. Sá sem hraðast ók var mældur á 130 km hraða þar sem leyfilegt er að aka á 90 km við bestu skilyrði. Sekt fyrir slíkt nemur 75.000 kr. og 2 punktum í ökuferilskrá viðkomandi ökumanns.
Þann 21. júní tilkynntu starfsmenn Vegagerðarinnar um að eignaspjöll hafi verið framin á eigum ríkisins, þ.e.a.s. málningu hafði verið úðað á veggi Vestfjarðaganga og á bakhlið umferðarskilta í og við gangamunnana í Tungudal, Breiðadal og Botnsdal. Lögreglumenn hófu þá þegar rannsókn málsins. Fljótlega beindust böndin að íslenskum ferðamanni sem, við yfirheyrslur hjá lögreglunni daginn eftir, viðurkenndi að hafa málað á veggi vegganganna og skiltin. Lagt var hald á fjölmarga úðabrúsa sem fundust í fórum mannsins. Málið er litið alvarlegum augum enda blasir við að töluverð vinna felst í því að afmá þessa málningu.
Nokkra tilkynningar hafa borist lögreglunni um að ekið hafi verið á lambfé á vegum á Vestfjörðum. Enn eru eigendur búfjár hvattir til að reyna að tryggja að fé gangi ekki á eða við vegi. Sömuleiðis eru ökumenn hvattir til að gæta að þessari hættu.