24 Október 2016 15:32
15 ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu og á Djúpvegi.
Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni fólksbifreiðar. Aftan í fólksbifreiðinni var kerra og farmur kerrunnar var bifreið. Um var að ræða ungan ökumann sem ekki hafði ökuréttindi til að aka með svo þungan farm í eftirdragi. Auk þess var reglugerð um hleðslu og frágang ekki uppfyllt.
Einn ökumaður var kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar. Sá má búast við sekt fyrir brotið.
Þá var ökumaður vöruflutningabifreiðar stöðvaður vegna grunsemda um að ækið væri of þungt. Við vigtun reyndist hún vera rúmum 6 tonnum yfir leyfilegum heildarþunga.
Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni, á Ísafirði, sem hafði áður misst ökuréttindin vegna ölvunaraksturs. Sá má búast við þungri refsingu enda um ítrekaðan réttindaleysisakstur.
Tilkynnt var um eitt vinnuslys í vikunni. En vörulyftara var ekið á fót starfsmanns á vinnustað einum á Vestfjörðum. Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar og Vinnueftirlitsins. Hinn slasaði fékk aðhlynningu á heilbrigðisstofnun og heilsast vel.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku. Annað óhappið var minni háttar, innanbæjar á Hólmavík. Hitt óhappið varð síðdegis sunnudaginn 23. október þegar ungur ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í Skötufirði með þeim afleiðingum að hún rann út af veginum og valt a.m.k. eina veltu. Auk ökumanns var einn farþegi í bifreiðinni. Hvorugan sakaði alvarlega enda báðir spenntir í
öryggisbelti. Bifreiðin var óökufær eftir óhappið.
Snemma morguns þann 23. október sl. barst lögreglunni tilkynning um að stolið hafi verið úr fólksbifreið einni, sem stóð mannlaus við Smiðjugötu á Ísafirði, iPad og fartölvu. Atvikið virðist hafa gerst að kveldi 22. október eða aðfaranótt 23. s.m. Bifreiðinni hafði verið læst þegar hún var yfirgefin en læsing einnar hurðarinnar virðist hafa staðið á sér og hún því ólæst. Þá barst lögreglu tilkynning um að reynt hafi verið að fara inn í nokkrar aðrar bifreiðar í miðbæ
Ísafjarðar.
Lögreglan vill minna á mikilvægi þess að ökumenn yfirfari ljósabúnað bifreiða sinna enda farið að skyggja. Þá er mikilvægt að gæta þess að allir gangandi vegfarendur, ekki síst börn, séu með endurskin á yfirhöfnum sínum. Reiðhjólafólk þarf einnig að gæta að þessum mikilvæga öryggisþætti.