21 Júní 2017 12:01
Síðdegis þann 18. júní sóttu björgunarsveitarmenn frá Ísafirði, á björgunarbátnum Gunnari Friðrikssyni, göngumenn í Hornvík. Alls var um fimm menn að ræða. Einn þeirra hafði snúið sig á ökla og gat ekki gengið lengra annar var veikur og hinir þrír orðnir kaldir og blautir. Mönnunum var komið til Ísafjarðar þar sem tveir þeirra fengu aðhlynningu á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Lögreglunni bárust fjórar tilkynningar um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Enn og aftur eru eigendur hvattir til að gera allt til þess að halda búfé fjarri vegum og sömuleiðis eru ökumenn hvattir til að gæta varúðar m.t.t. þessa.
Aðfaranótt sunnudagsins 11. júní sl. munu nokkrir aðilar hafa farið yfir girðingu sem umlykur sundlaugarsvæðið í Bolungarvík. Fólkið mun hafa farið í útilaugarnar sem þar eru og valdið tjóni. Málið er til rannsóknar og þiggur lögreglan allar upplýsingar sem geta komið að gagni.
Alls voru 13 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Flestir þeirra voru stöðvaðir í Strandasýslu.
Tveir ökumenn voru kærðir, í liðinni viku, fyrir akstur undir áhrifum áfengis. Báðir voru þeir stöðvaðir aðfaranótt 15. júní og aðfaranótt 18. júní.
Einn ökumaður var sektaður fyrir að leggja bifreið sinni með ólöglegum hætti í miðbæ Ísafjarðar.
Skráningarnúmer voru tekin af alls 14 ökutækjum í vikunni. Í flestum tilvikum var um að ræða vangoldin iðgjöld vegna ábyrgðatrygginga en einnig vegna vanrækslu á lögbundinni skoðun. Eigendur ökutækja eru hvattir til að huga vel að þessum mikilvægu þáttum, skoðun og að ökutæki séu tryggð.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í umdæminu í liðinni viku. Um var að ræða bílveltu á fjallveginum milli Bíldudals og Tálknafjarðar, Hálfdáni. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, var fluttur á heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði. Hann var þó ekki alvarlega slasaður. Í hinu tilvikinu var einnig um bílveltu að ræða, en þá í Álftafirði. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, hlaut ekki alvarleg meiðsl.
Tilkynnt var um innbrot í sumarhús í Reykhólasveit, n.t.t. Hulduhól. Ekki er ljóst hvenær atvikið átti sér stað en bústaðurinn hefur ekki verið í notkun í nokkra mánuði. Hurð hafði verið spennt upp og dufti úr slökkvitæki úðað inn í bústaðinn að ástæðulausu. Þá virðist sem eitthvað hafi horfið úr bústaðnum. Málið er til rannsóknar og þiggur lögreglan upplýsingar um grunsamlegar mannaferðir við bústaðinn.
Þá var tilkynnt um nytjastuld á bifreið sem stóð mannlaus á Hólmavík aðfaranótt 12. júní. Bifreiðin fannst annars staðar á Hólmavík. Grunur vaknaði um geranda og upplýsti lögreglan málið strax daginn eftir atvikið. Einn maður hefur viðurkennt þjófnaðinn.