9 Febrúar 2016 08:55
Í lok síðustu viku, eða fimmtudag og föstudag, var veður slæmt og vegir lokuðust, fjallvegir vegna skafrennings og ófærðar, og Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð var lokið vegna hættu á skriðuföllum. Eftir að veginum var lokað féllu nokkur snjóflóð úr Kirkjubólshlíð og eitt yfir veginn. Þá féll stórt snjóflóð úr Fossahlíð í Skötufirði og yfir veginn.
Að kveldi fimmtudagsins 4. febrúar voru hús á reit 4 á Patreksfirði, alls 6 hús rýmd af öryggisástæðum. En mikil snjókoma og hvassviðri var þá á Patreksfirði og spáin með þeim hætti að ákveðið var, skv. ráðgjöf snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands, að rýma þessi hús. Alls voru 18 manns sem yfirgáfu heimili sín. Fimm af þeim fengu aðstoð RKÍ deildarinnar á Patreksfirði og bæjaryfirvalda og gistu á Fosshótelinu á staðnum. Aðrir fluttu sig til vina og vandamanna. Eftir að rýming hafði farið fram féll snjóflóð úr hlíðinni fyrir ofan þessi umræddu hús en hafnaði þó ekki á byggð. Íbúarnir fengu að fara til síns heima á föstudagskvöldið þegar hættan var talin liðin hjá.
Að kveldi 1. febrúar var karlmaður handtekinn ölvaður og æstur í miðbæ Ísafjarðar. Engin úrræði dugðu önnur en þau að færa hann í fangaklefa þar sem áfengisvíman var látin renna af honum áður en honum var sleppt aftur lausum.
Um sl. helgi var einn maður handtekinn og látinn gista í fangageymslu lögreglunnar. Sá var mjög ölvaður og æstur í miðbæ Ísafjarðar. Ítrekaðar tilraunir til að róa manninn báru ekki árangur og var því brugðið á þetta ráð. Sá hinn sami er jafnframt grunaður um að hafa kastað hlut í andlit annars manns þannig að sá þurfti að leita læknisaðstoðar. Það mál er til rannsóknar.
Aðfaranótt 7. febrúar voru lögreglumenn á Patreksfirði kallaðir til að hafa afskipti af þremur mönnum sem voru í slagsmálum, utan dyra í bænum. Lögreglumönnum tókst að róa mennina og var þeim komið til síns heima án frekari eftirmála.
Tilkynnt var um 4 umferðaróhöpp á Vestfjörðum í liðinni viku. Um var að ræða minni háttar tjón og engin slys á vegfarendum.
Fjórir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að nota farsíma við akstur, án handfrjáls búnaðar. Lögreglan mun halda áfram að fylgjast með þessum þætti, sem og öðrum umferðarlagabrotum. Ökumenn eru hvattir til að haga akstri í samræmi við umferðarlög. Þess má geta að þó sektin við slíku broti sem þessu sé ekki há, eða krónur 5.000.- fylgir henni einn punktur í ökuferilsskrá.
Ástæða er til að minna þá sem hyggjast fara í langferðir, s.s. aka yfir fjallvegi, að afla sér upplýsinga um veður og færð áður. Það er hægt að gera með því að fara inn á vef Vegagerðarinnar , http://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/faerd-og-vedur/vestfirdir/vestfj1.html eða hringja í upplýsingasíma hennar, sem er 1777.