13 Apríl 2015 15:16
Í liðinni viku voru 6 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Þessi hraðakstursbrot áttu sér stað í Ísafjarðardjúpi, á Skutulsfjarðarbraut, á Hnífsdalsvegi og víðar.
Þá tók lögreglan skráningarmerki af alls 7 bifreiðum sem ýmist höfðu ekki verið færðar til reglubundinnar skoðunar eða án lögbundinnar ábyrgðartryggingar.
Lögregla og björgunarsveitir áttu í töluverðum önnum vegna ófærðar á heiðum í umdæminu, s.s. í Strandasýslu í Vesturbyggð og einnig í Ísafjarðardjúpi.
Ein kæra var lögð fram vegna meintrar líkamsárásar. Það mál er til rannsóknar hjá lögreglunni.
Að kveldi laugardagsins 11. apríl sl. hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem ók afar ógætilega í miðbænum á Ísafirði, lét bifreiðina renna af ásettu ráði milli akgreina og allt of hratt miðað við aðstæður. Ökumanninum var gerð sekt fyrir brotin.
Þá var einn ökumaður stöðvaður á Ísafirði, grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá neitaði að veita atbeina við rannsókn málsins, þ.e.a.s. að láta í té þvagsýni. Slík neitun, ein og sér, hefur í för með sér eins árs ökuleyfissviptingu.