26 Júní 2024 12:07
Lögreglan varar við tilraunum til fjársvika og/eða auðkennisþjófnaða í gegnum smáskilaboð (SMS), eða það sem kallast Smishing.
Smishing brot eru framkvæmd af skipulögðum svikahópum sem senda stórum hópi fólks SMS skilaboð í þeim tilgangi að ná persónulegum upplýsingum og jafnvel fjármunum af viðtakendum.
Aukning hefur orðið á Smishing brotum samkvæmt upplýsingum í gegnum norrænt samstarf tengt fjársvikum með notkun rafrænna lausna. Tæknin er þróuð og móðurmál viðkomandi lands notað á mjög faglegan hátt.
Á Norðurlöndunum hafa einstaklingar verið að fá skilaboð sem virðast vera frá yfirvöldum, lögreglu, tollayfirvöldum eða skattayfirvöldum. Í skilaboðunum fylgir vefslóð sem leiðir móttakanda áfram inn á sviðasíður þar sem brotamenn geta komist yfir viðkvæmar upplýsingar eða aðgang að fjárhagsgögnum. Símtal getur fylgt í kjölfar skilaboðanna og þá hefur tungumál viðtakanda verið mjög gott og ekki vakið upp grunsemdir.
Vakin er athygli á því að öll þau sem kunna að fá svikaskilaboð fylgi ekki leiðbeiningum þeirra. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að öll skilaboð séu réttmæt og eitthvað sem viðkomandi átti von á.
Einnig hefur borið á mikilli aukningu í tilraunum til að komast yfir viðkvæmar upplýsingar í gegnum rafræn skilríki. Áhersla er lögð á að samþykkja ekki innskráningu rafrænna skilríkja nema viðkomandi sé sjálfur að skrá sig inn og tryggi að verið sé að skrá sig inn á rétta síðu.