10 Apríl 2014 12:00
Nánast allir ökumenn voru til fyrirmyndar þegar lögreglan var við hraðamælingar á Nauthólsvegi í Reykjavík í fyrradag, og er það ánægjuleg nýbreytni. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Nauthólsveg í suðurátt, við leikskólann Öskju. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 93 ökutæki þessa akstursleið og var þeim öllum nema einu ekið á löglegum hraða, en þarna er 50 km hámarkshraði. Hinn brotlegi mældist á 60 km hraða, en meðalhraði allra ökumanna var aðeins 31. Þess ber að geta að við fyrri hraðamælingar lögreglu á þessum stað hefur brotahlutfallið verið 14 – 26% og hraðast ekið á 87. Nú kveður við annan tón og má þakka það úrbótum sem Reykjavíkurborg hefur ráðist í, en komið hefur verið fyrir hraðahindrunum, svonefndum koddum, á Nauthólsvegi.
Vöktun lögreglunnar á Nauthólsvegi er liður í umferðareftirliti hennar á höfuðborgarsvæðinu, en fjölmargar ábendingar hafa borist um hraðakstur á þessum stað undanfarin misseri, bæði frá starfsmönnum leikskólans sem og forráðamönnum barnanna sem þar dvelja. Með áðurnefndum úrbótum á Nauthólsvegi er viðbúið að slíkar ábendingar heyri nú sögunni til.