7 Mars 2013 12:00
Í byrjun árs hvatti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ökumenn til sérstaks átaks til að fækka umferðarslysum enda ljóst að flest þeirra verða vegna ógætilegs aksturs. Ábyrgðin hvíli því á ökumönnum fyrst og fremst, hvort heldur er til fækkunar slysa eða fjölgunar.
Þegar bráðabirgðatölur fyrstu tveggja mánaða eru skoðaðar kemur í ljós að 61 umferðarslys er skráð hjá lögreglu á tímabilinu. Á sama tíma í fyrra voru þau 57 talsins eða fjórum færri. Hvatningin metnaðarfulla sem laut að því að fækka slysum úr sjö að meðaltali á viku niður í þrjú til fjögur, hefur því ekki skilað sér enn sem komið er.
Í ljós kemur við greiningu á orsökum slysanna að í langflestum tilvikum (22 eða 36%) er um útafakstur að ræða sem rekja má til ógætilegs og/eða of hraðs aksturs. Í fjórðungi þessara tilvika (samtals fimm tilvik) er að auki um ölvunar- eða fíkniefnaakstur að ræða.
Næstflest slysin tengjast ógætilegum akstri á vegamótum, við gangbrautir eða þar sem gangandi eða hjólandi vegfarenda getur verið von. Slík tilvik eru 13 talsins eða 21% allra slysa. Af þessum 13 var ellefu sinnum ekið á gangandi vegfaranda, þar af þrjá á gangbraut. Í tveimur tilvikum var ekið á hjólreiðamann. Annar þeirra var á gangbraut. Samtals voru því fjórir þeirra 13 sem ekið var á, á leið yfir gangbraut þegar atvik áttu sér stað eða í 31% tilvika.
Í níu tilvikum eða 15% allra slysanna er orsökin rakin til aksturs á móti rauðu umferðarljósi. Ölvun kom við sögu í einu þeirra. Þá er orsökin rakin jafnoft til of stutts bils milli ökutækja eða níu sinnum og var þá einnig um ölvunarakstur að ræða í einu tilviki.
Þá eru fimm slys eða 8% rakin til ógætilegrar vinstri beygju á gatnamótum.
Önnur tilvik en færri eru rakin til biðskyldubrots og aksturs á röngum vegarhelmingi, samtals 5%.
Af 61 slysi á tímabilinu var um ölvunarakstur að ræða í sjö þeirra eða 11% tilvika og fíkniefnaakstur í einu eða tæplega 2% tilvika.
Mat lögreglu – hvatning
Lögregla telur að í öllum tilvikum hefðu ökumenn getað komið í veg fyrir slysin með aukinni aðgát, hægari akstri eða e.t.v. akstri án ölvunar eða fíkniefna. Hún hvetur ökumenn og vegfarendur því til að taka höndum saman, standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera í umferðinni og tryggja í sameiningu að öll komumst við heil heim, hvort sem við erum gangandi, akandi eða hjólandi. Hún er þess fullviss að það er hægt með markvissu samstilltu átaki allra vegfarenda.
Umferðarslys í janúar og febrúar
Umferðarslys í janúar og febrúar