11 Janúar 2011 12:00
Rétt fyrir hádegi á laugardag lentu tvær bifreiðar saman á gatnamótum Reykjavíkurvegar og Hjallabrautar í Hafnarfirði, en umferð þar er stjórnað með umferðarljósum. Annarri bifreiðinni var ekið til norðurs Reykjavíkurveg og hinni til austurs Hjallabraut. Við áreksturinn kastaðist önnur bifreiðin á þá þriðju er var kyrrstæð við gatnamótin á rauðu ljósi. Tvennt var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið. Málið er í rannsókn en grunur leikur á að annar ökumannanna hafi ekið á móti rauðu umferðarljósi. Vitni að atvikinu eru beðin um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 en myndin hér að neðan er af vettvangi slyssins.
Því miður var þetta ekki eina umferðaróhappið um helgina. Um klukkan fjögur þennan sama dag varð fjögurra bíla árekstur á Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Þrjú ökutæki voru kyrrstæð í röð við gatnamótin á rauðu ljósi þegar því fjórða var ekið aftan á það sem aftast var í röðinni. Við það kastaðist sú bifreið á það ökutæki sem í miðjunni var sem aftur lenti á því fremsta. Ökumaður sá er valdur var að árekstrinum bar því við að hafa blindast af sólinni sem var lágt á lofti er þetta gerðist. Þrír voru fluttir á slysadeild með minniháttar áverka. Mál þetta er í rannsókn en lögregla hvetur, af þessu tilefni, ökumenn til að sýna fyllstu aðgát þegar sól er lágt á lofti eins og raunin var í þessu tilviki.
Á laugardagskvöld varð árekstur á gatnamótum Reykjavíkurvegur og Flatahrauns í Hafnarfirði en þar er umferð stýrt með umferðarljósum. Bifreið var ekið til suðurs Reykjavíkurveg og svo beygt til vinstri í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Einn var fluttur á slysadeild eftir óhappið en ekki er talið að hann sé alvarlega slasaður.
Á sunnudagskvöld varð svo bílvelta á Sæbraut við Sólfarið. Óhappið mun hafa atvikast þannig að tvær bifreiðar er báðar voru á leið vestur Sæbraut lentu saman með þeim afleiðingum að önnur þeirra valt tvær veltur. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur á slysadeild eftir óhappið. Atvikið er í rannsókn.