7 Febrúar 2012 12:00
Tvö umferðarslys urðu á höfuðborgarsvæðinu í morgun en í báðum tilvikum var ekið á barn sem var á leið í skóla. Annað slysið varð í Garðabæ en hitt í Hafnarfirði. Meiðsli barnanna, 10 ára stúlka og 12 ára drengur, voru ekki alvarleg eftir því sem best er vitað.
Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að fara varlega, ekki síst í nágrenni skóla. Sama gildir um gangandi vegfarendur en þeir þurfa líka að sýna aðgát. Til að þeir síðarnefndu séu betur sýnilegir í skammdeginu er um að gera að nota endurskinsmerki og á það jafnt við um börn sem fullorðna.
Lögreglan reynir hvað hún getur að fylgjast með umferð við skóla og í og við íbúðargötur. Hvergi verður slakað á í þeim efnum og eftirlitið frekar hert, ef eitthvað er. Næstu daga mega ökumenn því eiga von á að sjá lögregluna jafnvel oftar en þeir eru vanir.