22 Desember 2021 15:19
Rétt eftir hádegi í dag varð árekstur þriggja bifreiða á Snæfellsnesvegi þar sem 12 manns voru í bílunum, börn og fullorðnir. Lögregla, tækjabifreið frá slökkviliði og sjúkralið fóru á vettvang. Beita þurfti klippum til þess að ná einum aðila úr bifreið sinni.
Upplýsingar um alvarleika meiðsla liggja ekki fyrir en einn aðili var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku í Fossvogi en aðrir á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar. Ökutækin þrjú voru ekki ökuhæf eftir óhappið og flutt af vettvangi með kranabifreiðum. Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi ásamt rannsóknarnefnd umferðarslysa fór á vettvang.