4 Maí 2015 12:39
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. apríl – 2. maí.
Mánudaginn 27. apríl kl. 16.54 varð aftanákeyrsla á frárein Kringlumýrarbrautar að Miklubraut. Ökumaður hafði stöðvað aftan við aðra kyrrstæða bifreið á reininni, en þegar henni hafi verið ekið af stað gerði hann það einnig og litið jafnframt eftir umferð um Miklubraut. Þá stöðvaði ökumaður fremri bifreiðarinnar á ný og árekstur varð. Ökumaður og farþegi hennar voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 30. apríl. Kl. 11.40 var bifreið ekið á ljósastaur við Miklubraut gegnt Faxafeni. Ökumaðurinn hafði fengið flogakast með fyrrgreindum afleiðingum. Hann ásamt farþega í bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.07 valt bifreið á Víkurvegi eftir aftanákeyrslu Ökumaðurinn taldi sig hafa fengið aðsvif. Hann var fluttur á slysadeild.
Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er algerlega óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.