28 Desember 2011 12:00
Samkvæmt bráðabirgðatölum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um umferðarslys þá varð um það bil eitt slys hvern dag ársins 2011, eða samtals 358 á tímabilinu 1. janúar til 27. desember. Tölur um fjölda slasaðra eða alvarleika liggja ekki fyrir en ljóst er að slasaðir eru nokkuð fleiri en fjöldi slysa segir til um. Í öllum tilvikum er um atvik að ræða þar sem vegfarendur þurfa læknisaðstoðar við í kjölfar umferðaróhapps. Meiðsli þeirra eru m.a. tognanir, beinbrot, innvortis meiðsl, mænuskaðar og höfuðáverkar. Ljóst er því að margir eiga um sárt að binda vegna umferðarslysa.
Það er mat lögreglu að hægt sé að koma í veg fyrir umferðarslys leggist allir á eitt um að aka gætilega og sýna tillitssemi í hvívetna. Á það skortir í allt of mörgum tilfellum. Til að freista þess að sýna fram á tengsl orsaka og afleiðinga að þessu leyti mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu senda út tilkynningu tvisvar í viku með upplýsingum um þau umferðarslys sem hún kemur að. Þar mun koma fram hvar, hvenær og með hvaða hætti slysið varð, að hverju rannsókn lögreglu beinist, hversu margir slösuðust og eftir atvikum alvarleiki meiðslanna.
Um tilraunaverkefni lögreglu er að ræða. Það mun standa yfir í einn mánuð til að byrja með og hefst 1. janúar nk. Tilkynningarnar verða sendar út á þriðjudögum og föstudögum.