3 Janúar 2025 13:47
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. –28. desember, en alls var tilkynnt um 52 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 22. desember. Kl. 15.05 var bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík, á sérrein á móts við Skeifuna, og aftan á aðra bifreið, sem við það kastaðist yfir á aðra akrein og á þriðju bifreiðina. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.03 varð tveggja bíla árekstur á Sæbraut í Reykjavík, við Skeiðarvog, en þeim var báðum ekið til norðurs. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið á hægri akrein en hinni á vinstri akrein. Og ætlaði síðarnefndi ökumaðurinn að skipta um akrein þegar árekstur varð með þeim. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 23. desember kl. 7.02 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli eftir að hafa hjólað á rafmagnshlaupahjól, sem lá þversum á hjólastíg á mótum Sæbrautar og Kalkofnsvegar í Reykjavík, við Faxagötu. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 24. desember. Kl. 14.04 varð tveggja bíla árekstur í Skálahlíð í Mosfellsbæ, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum rann önnur bifreiðin yfir á öfugan vegarhelming svo árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.13 missti ökumaður stjórn á bifreið sinn á leið norður Reykjanesbraut í Garðabæ, við frárein frá Kauptúni, sem við það hafnaði á ljósastaur og síðan utan vegar. Ökumaðurinn og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Fimmtudaginn 26. desember kl. 15.03 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði við Fossvogskirkjugarð í Reykjavík. Mikil hálka og ísing var á vettvangi, en verið var að ýta bifreiðinni af stað þegar slysið varð. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 27. desember kl. 13.21 var bifreið ekið á vegfaranda á gatnamótum Laugavegar og Frakkastígs í Reykjavík. Vegfarandinn var við vegavinnu þegar slysið varð, en merkingum á vettvangi var ábótavant. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.