27 Desember 2024 10:07
Í síðustu viku slösuðust tuttugu vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. –21. desember, en alls var tilkynnt um 43 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 15. desember. Kl. 9.49 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, sem við það rann á ljósastaur á gatnamótunum við Listabraut. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.43 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Elliðavatnsvegi í Kópavogi, við Andvaravelli, sem við það rann út af veginum og hafnaði í trjágróðri. Ökumaðurinn og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.29 var bifreið ekið á steinvegg á Suðurgötu í Hafnarfirði. Verið var að skafa snjó af henni þegar slysið varð, en bifreiðin hafði verið kyrrstæð og í gangi meðan á því stóð. Barn ökumannsins hafði þá farið inn í bifreiðina og ekið henni af stað með einhverjum hætti. Tveir fóru á slysadeild.
Mánudaginn 16. desember kl. 9.53 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg, inn á gatnamótin við Álftanesveg og í hlið slökkviliðsbíls, sem var í forgangsakstri (með kveikt á tilheyrandi hljóð- og ljósmerkjum) og á leið yfir gatnamótin á rauðu ljósi. Fyrrnefndi ökumaðurinn sagðist í aðdragandanum ekki hafa orðið var við neinn forgangsakstur, en síðarnefndi ökumaðurinn sagði að öll önnur ökutæki á vettvangi hefðu numið staðar áður en áreksturinn varð. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 17. desember. Kl. 10.10 var ekið á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði við Grensáskirkju í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 10.34 var bifreið ekið austur Úthlíð í Reykjavík og beygt áleiðis suður Lönguhlíð. Á sama tíma var annarri bifreið ekið suður Lönguhlíð svo árekstur varð með þeim. Við það kastaðist fyrrnefnda bifreiðin í veg fyrir þriðju bifreiðina, sem var líka ekið um Lönguhlíð, og varð einnig árekstur með þeim. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.04 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Eyrarfjallsvegi í Kjós, við Ytri-Tindastaði, sem við það rann út af veginum og hafnaði í skurði. Ökumaðurinn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.17 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðveg í Garðabæ, við Goðatún, og aftan á aðra bifreið sem var á sömu leið. Við það fór fyrrnefnda bifreiðin utan vegar og hafnaði á ljósastaur, en vitni sagði ökumann hennar hafa ekið hratt og ógætilega í aðdraganda slyssins. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðaslys voru tilkynnt miðvikudaginn 18. desember. Kl. 7.06 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Arnarnesvegi í Garðabæ, við Arnarnesbrú, sem við það hafnaði bæði á umferðarljósum og ljósastaur. Ökumaðurinn, sem mundi lítt eftir slysinu eða aðdraganda þess, var fluttur á slysadeild. Kl. 11.46 var bifreið ekið um Kópavogsbraut í Kópavogi, að Kópavogstorgi, og á reiðhjól sem þveraði veginn á gangbraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.50 féll ökumaður af golfbíl í bílakjallara undir Hrafnistu í Hafnarfirði þegar hann tók þar of skarpa beygju. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 19. desember. Kl. 19.45 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vesturlandsvegi í Reykjavík, undir brú Víkurvegur, þegar hann ætlaði að beygja inn á aðrein að Víkurvegi. Við það hafnaði bifreiðin á ljósastaur og brúarmannvirkinu, en snjór og hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.45 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Kópavogi, á móts við Skógarlind, og aftan á aðra bifreið, sem hafði numið staðar vegna umferðar fram undan. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.