19 Desember 2024 11:00
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. –14. desember, en alls var tilkynnt um 44 umferðaróhöpp í umdæminu.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 9. desember. Kl. 0.26 missti ökumaður stjórn á bifreið sinn eftir að hafa ekið niður Ártúnsbrekku í Reykjavík, en við það snérist hún í hringi, fór síðan inn á frárein frá Sæbraut, þá á ljósastaur, sem við það féll til jarðar, og stöðvaðist loks í grasbrekku utan vegar. Mikið vatn var í hjólförum á Vesturlandsvegi þegar slysið varð. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 0.48 var bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík og aftan á aðra bifreið sem var kyrrstæð á veginum, til austurs frá Hjálpræðishernum. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar hafði yfirgefið hana til að kanna með ástand aðila, sem voru í bifreið utan vegar rétt hjá eftir umferðarslys sem varð þar skömmu áður. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar, sem var grunaður um fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild. Kl. 5.10 var bifreið ekið suður Höfðabakka í Reykjavík, norðan Vatnsveituvegar, og á umferðarmerki, steypustólpa og miðjuvegrið. Við það valt bifreiðin og endaði á toppnum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.04 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á gangstétt á Flókagötu í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 10. desember kl. 22.06 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kleppsvegar og Skipasunds í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Skipasund en hinni austur Kleppsveg svo árekstur varð með þeim. Biðskylda er gagnvart umferð um Kleppsveg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 11. desember. Kl. 17.31 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Grensásvegi í Reykjavík. Vegfarandinn var á leið yfir götuna til suðurs, á gatnamótunum við Skeifuna/Ármúla, og sagðist hafa farið yfir á grænu ljósi. Ökumaðurinn ók rakleiðis af vettvangi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.20 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vesturlandsvegi í Kollafirði. Við það fór bifreiðin utan vegar, valt og hafnaði loks á steyptum skjólvegg við gamlar malargryfjur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 12. desember kl. 17.40 varð fjögurra bíla aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Reykjavík, í Ártúnsbrekku. Þær voru allar á sömu akrein á leið til vesturs, en í aðdragandanum sagðist ökumaður fremstu bifreiðarinnar hafa stöðvað vegna umferðar fram undan. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 14. desember kl. 23.48 varð tveggja bíla árekstur á Háaleitisbraut í Reykjavík, við Listabraut, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum hugðist annar ökumannanna taka vinstri beygju og aka Listabraut til vesturs þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.