11 Desember 2024 14:46
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. –7. desember, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þriðjudaginn 3. desember kl. 19.05 var bifreið ekið vestur Fífuhvammsveg í Kópavogi, að Fífutorgi við Dalsmára, og aftan á aðra bifreið á sömu leið. Í aðdragandanum sagðist ökumaður aftari bifreiðarinnar hafa verið að þurrka móðu af framrúðunni þegar slysið varð. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 4. desember kl. 16.47 var bifreið ekið vestur Listabraut í Reykjavík, við Borgarleikhúsið, og á gangandi vegfaranda á gangbraut. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 5. desember. Kl. 9.03 varð tveggja bíla árekstur á Sæbraut í Reykjavík, við Holtaveg. Í aðdragandanum var þeim ekið um Sæbraut úr gagnstæðri átt, en á gatnamótunum hugðist annar ökumannanna taka vinstri beygju og aka Holtaveg til suðvesturs þegar árekstur varð með þeim. Sá er talinn hafa ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.55 valt vinnuvél á hliðina við Víkurskóla í Reykjavík þegar unnið var við að hálkuverja gangstíga. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 6. desember kl. 15.45 var bifreið ekið á ljósastaur á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, við Langatanga. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað í aðdraganda slyssins. Farþegi var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 7. desember kl. 14.44 var bifreið ekið austur Miklubraut í Reykjavík, að gatnamótum við Grensásveg, en þar hugðist ökumaðurinn færa sig inn á beygjuakrein til vinstri/norðurs. Við það rann bifreið hans á svellbunka og á aðra bifreið, sem var þarna kyrrstæð á rauðu ljósi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.