5 Desember 2024 13:57
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. –30. nóvember, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 25. nóvember. Kl. 11.45 varð þriggja bíla árekstur á gatnamótum Lyngháls og Stuðlaháls í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreið ekið vestur Lyngháls á sama tíma og annarri bifreið var ekið suður Stuðlaháls svo árekstur varð með þeim, en við það köstuðust þær báðar á þriðju bifreiðina sem var kyrrstæð á gatnamótunum. Stöðvunarskylda er fyrir umferð um Lyngháls. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.50 var bifreið ekið austur Hjallahraun í Hafnarfirði og á rafmagnshlaupahjól, sem var ekið um götuna, en ökumaður bifreiðarinnar hugðist taka vinstri beygju inn á Dalshraun þegar slysið varð. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 26. nóvember kl. 17.46 var bifreið ekið norður Langholtsveg í Reykjavík og á gangandi vegfaranda og hund sem þveruðu veginn. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild og hundurinn á dýraspítala.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 27. nóvember. Kl. 15.34 varð tveggja bíla árekstur á Vesturlandsvegi í Reykjavík, við Grafarholt, en þeim var ekið í sömu átt. Ágreiningur er uppi um aðdraganda slyssins. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 16 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Stangar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suðurvestur Stöng en hinni suðaustur Breiðholtsbraut svo árekstur varð með þeim. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar viðurkenndi að hafa ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 30. nóvember kl. 17.29 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, sunnan Arnarnesbrúar, og aftan á aðra bifreið, en ökumaður hennar hafði reynt að hemla og sveigja framhjá þriðju bifreiðinni, sem var kyrrstæð á veginum vegna bilunar. Við það kastaðist bifreiðin sem ekið var á, á kyrrstæðu bifreiðina. Fjórir farþegar úr biluðu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.