28 Nóvember 2024 09:46

Í síðustu viku slösuðust tveir vegfarendur í tveimur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. –23.  nóvember, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fimmtudaginn 21. nóvember kl. 18.42 var bifreið ekið vestur Sæbraut í Reykjavík og á rafmagnshlaupahjól, sem var á leið til suðurs á gönguleið á gatnamótunum við Snorrabraut. Talið er að ökumaður bifreiðarinnar, sem er grunaður um fíkniefnaakstur, hafi ekið gegn rauðu ljósi, en vitni sagði hann enn fremur hafa ekið mjög glannalega í aðdraganda slyssins. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 23. nóvember kl. 10.08 varð tveggja bíla árekstur á Breiðholtsbraut í Reykjavík, á gatnamótum við Seljaskóga, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Á gatnamótunum hugðist annar ökumannanna taka vinstri beygju og aka Seljaskóga til suðvesturs þegar árekstur varð með þeim, en þarna er ekki varin vinstri beygja í ljósastýringunni. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Breiðholtsbraut.