22 Ágúst 2024 12:09
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. ágúst, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 11. ágúst kl. 11 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á hjólastíg í Traðarlandi í Reykjavík, við Blesugróf, þegar annar hjólreiðamaður hjólaði aftan á hjólið hans. Hjólreiðamaðurinn, sem hjólað var á, var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 14. ágúst. Kl. 15.02 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Vatnsendavegi í Kópavogi, við Ögurhvarf. Ökumaðurinn ók rakleiðis af vettvangi, en gaf sig síðar fram eftir að auglýst var eftir honum í fjölmiðlum. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 20.52 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg í Reykjavík, í Ártúnsbrekku, og aftan á vinnuvél sem var ekið sömu leið með tendruð gulblikkandi vinnuljós. Ökumaður bifreiðarinnar, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.38 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg í Reykjavík, á móts við Esjuberg, og á ljósastaur við götuna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 15. ágúst kl. 6.27 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg á Kjalarnesi, á milli Sjávarhóla og Saltvíkur, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni. Við það valt bifreiðin út af akbrautinni og inn á miðeyju og hafnaði síðan á vegriði. Að sögn ökumanns var vatnspollur á veginum þar sem hann missti stjórnina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 16. ágúst kl. 10.20 var bifreið ekið vestur Sæbraut í Reykjavík, að Klettagörðum, og aftan á aðra bifreið sem var á sömu leið, nýtekin af stað eftir að grænt umferðarljós kviknaði á gatnamótunum. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.