Frá vettvangi á Vesturlandsvegi við Höfðabakkabrú.
21 Júní 2024 13:08

Í síðustu viku slasaðist tuttugu og einn vegfarandi í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15.  júní, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 9. júní. Kl. 0.15 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg, að hringtorgi við gatnamót Korpúlfsstaðavegar í Reykjavík, þar sem ökumaðurinn missti stjórnina, en við það hafnaði bifreiðin utan vegar. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 1.28 var bifreið ekið á Heiðmerkurvegi í Reykjavík, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni með þeim  afleiðingum að bifreiðin hafnaði utan vegar og valt. Þetta gerðist þar sem beygja er á veginum og malarvegur tekur við af malbiki. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.57 var bifhjóli ekið utan i annað bifhjól á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði, en þar fór fram Íslandsmót bifhjólamanna. Við áreksturinn hafnaði annar bifhjólamannanna utan brautar. Hann var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 10. júní kl. 17.21 varð tveggja bíla árekstur á bifreiðastæði Bauhaus við Lambhagaveg í Reykjavík. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 12. júní. Kl. 16.19 varð sex bíla aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Reykjavík, við Höfðabakkabrú, en þeim var öllum ekið í austur. Fremsta bifreiðin hafði stöðvað vegna umferðar fram undan, en ökumennirnir sem á eftir komu náðu ekki að bregðast við í tæka tíð. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Kl. 19.35 varð tveggja bíla árekstur í hringtorgi í Kauptúni í Garðabæ. Þær voru á sitthvorri akreininni í hringtorginu, en annarri bifreiðinni var ekið frá innri akreininni þegar áreksturinn varð. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.54 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls í Stekkjarási í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið frá bifreiðastæði við götuna, en hjólinu hjólað eftir göngustíg. Ökumaðurinn sagði að trjágrjóður á vettvangi hefði byrgt honum sýn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 13. júní. Kl. 7.07 hafnaði bifreið utan vegar við Elliðavatnsveg i Garðabæ, við Vífilsstaðahraun. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 12.29 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Vesturlandsvegi í Reykjavík, á móts við Grafarholt. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði dregið úr hraðanum vegna gæsahóps sem var á leið yfir veginn. Hinn ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.29 varð tveggja bíla árekstur í Vatnagörðum í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið niður ramp af bílaplani Holtagarða, en hinni norður Vatnagarða svo árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 14. júní kl. 16.06 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls í Leirutanga í Mosfellsbæ, en reiðhjólið kom inn á götuna af göngustíg. Mikill gróður er á vettvangi og byrgði hann báðum sýn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 15. júní kl. 17.54 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar í Garðabæ. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Álftanesveg en hinni suður Hafnarfjarðarveg svo árekstur varð með þeim. Talið er að fyrrnefndu bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi, en ökumaðurinn stakk af frá vettvangi. Hann fannst síðar og er grunaður um ölvunar-, fíkniefna- og lyfjaakstur. Ökumaður og farþegi í hinni bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.