12 Júní 2024 10:38
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. júní, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 3. júní. Kl. 0.30 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Drekavöllum í Hafnarfirði þegar hann ók á götukant. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, fór sjálfur á slysadeild en þaðan var lögreglu tilkynnt um slysið. Kl. 12.16 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á bifreiðastæði við Krónuna í Skógarlind í Kópavogi. Á akstursleið bifreiðastæðisins gildir „varúð til hægri“. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 12.23 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli í undirgöngum undir Hringbraut í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um að vera undir áhrifum vímuefna, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.31 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Þorláksgeisla í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 7. júní. Kl. 7.52 varð árekstur strætisvagns og fólksbifreiðar á Kleppsvegi í Reykjavík, við Laugarásbíó. Í aðdragandaum var strætisvagninum ekið vestur Kleppsveg, en fólksbifreiðinni út af bifreiðastæði við götuna. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.29 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Vesturlandsvegar og Hvalfjarðarvegar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Vesturlandsveg en hinni vestur Hvalfjarðarveg og inn á gatnamótin, en þar er biðskylda. Annar ökumannanna var fluttur á sjúkrahús Akraness.
Laugardaginn 8. júní kl. 22.32 féll ökumaður af bifhjóli á Reykjanesbraut í Reykjavík, við Sprengisand, þegar hann ók á götukant. Í aðdragandanum var honum veitt eftirför eftir að hafa hunsað stöðvunarmerki lögreglu, en akstur mannsins var vítaverður. Bifhjólamaðurinn, sem var próflaus og ökutækið ótryggt og án skráningarnúmers, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.