Frá vettvangi á Vesturlandsvegi í Reykjavík, við Víkurveg.
10 Maí 2024 13:44

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. apríl – 4. maí, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 28. apríl. Kl. 12.05 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gangstétt við Laugaveg í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, er grunaður um ölvun. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.33 hafnaði torfærutæki (Buggy bíll) ofan i djúpu skarði sem hafði myndast á malarslóða við Bolöldu, skammt frá Suðurlandsvegi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.02 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Vesturlandsvegi í Reykjavík, við Víkurveg, sem við það hafnaði á bæði umferðareyju og umferðarskilti. Í aðdraganda slyssins er talið að ökumaður aftari bifreiðarinnar hafi fengið flogaveikikast, en hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. apríl. Kl. 9.32 varð tveggja bíl árekstur á Fífuhvammsvegi í Kópavogi, hjá brúnni yfir Reykjanesbraut, en þeim var ekið úr gagnstæðri átti. Ökumaðurinn sem ók til austurs hugðist taka vinstri beygju inn á aðrein að Reykjanesbraut þegar áreksturinn varð, en hann viðurkenndi að hafa verið að tala í símann og því annars hugar í aðdraganda slyssins. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 9.20 var bifreið ekið frá bifreiðastæði í Urriðaholtsstræti í Garðabæ, við Holtsveg, og á bifhjól, sem var ekið á gangstétt/göngustíg vestur götuna. Ökumaður bifreiðarinnar ræddi við bifhjólamanninn á vettvangi, skildi nafn sitt og símanúmer eftir á miða, og ók svo á brott. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild af aðstandanda, en þaðan var lögreglan upplýst um slysið.

Þriðjudaginn 30. apríl kl. 14.04 var bifhjóli ekið á Miklubraut í Reykjavík, við Réttarholtsveg, og aftan á bifreið sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. maí. Kl. 15.39 rákust saman tvö reiðhjól á brú yfir Kringlumýrarbraut í Reykjavík, í Fossvogi, en þeim var hjólað úr gagnstæðri átt. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 16.01 hafnaði vegfarandi í hlið bifreiðar, sem var ekið norður Vatnsendaveg í Kópavogi, móts við Fossahvarf. Í aðdraganda slyssins ætlaði vegfarandinn að hlaupa yfir götuna til að ná strætisvagni sem þarna fór um. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.43 var bifhjóli ekið á rafstýrða hliðslá við Sundaborg í Reykjavík, sem lokaði fyrir inn og útakstur af bifreiðastæði. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 3. maí. Kl. 20.18 féll ökumaður torfæruhjóls af því á mótorkrossbraut við Tungumela í Mosfellsbæ. Í aðdraganda slyssins var hann að stökkva á hjólinu þegar það lenti á steini í brautinni með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.18 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli við Íslandsbanka á Suðurlandsbraut í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreið bakkað úr stæði í húsagötunni og í veg fyrir hjólreiðamanninn, sem fipaðist með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 4. maí kl. 22.03 rákust saman tvær vespur í Austurkór í Kópavogi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn fór rakleiðis af vettvangi.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.