23 Janúar 2024 15:32
Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. janúar, en alls var tilkynnt um 41 umferðaróhapp í umdæminu.
Sunnudaginn 14. janúar kl. 14.34 hafnaði bifreið út í miðri Elliðaá, við Bíldshöfða/Sævarhöfða í Reykjavík. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur, en hann og farþegi voru fluttir á slysadeild. Skömmu áður hafði sömu bifreið verið ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótum Bíldshöfða og Breiðhöfða og á aðra bifreið, en tjónvaldurinn stakk af frá vettvangi. Tveir úr bifreiðinni, sem ekið var á , fóru á slysadeild.
Mánudaginn 15. janúar kl. 15.07 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Garðavegi í Garðabæ, austan Boðahleinar, sem við það hafnaði utan vegar og valt nokkrar veltur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 16. janúar kl. 15.14 var bifreið ekið á lokaða bílskúrshurð og inn í bílskúr við Laugalind í Kópavogi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 17. janúar kl. 7.56 var bifreið ekið suður Arnarbakka í Reykjavík, við Jörfabakka, og á gangandi vegfaranda sem þveraði veginn. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 18. janúar. Kl. 14.07 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut í Hafnarfirði og aftan á aðra bifreið, á móts við Kaplakrika, sem við það kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Snjóþæfingur og hálka var á vettvangi. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.17 hafnaði bifreið á ljósastaur við Háaleitisbraut í Reykjavík. Í aðdragandanum var henni ekið suður götuna, að Miklubraut, þegar bifreið fyrir framan stöðvaði við gatnamótin. Við það sveigði ökumaður fyrrnefndu bifreiðinnar frá til að forðast árekstur, en hafnaði þá á ljósastaur eins og fyrri sagði. Snjóþæfingur og hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. janúar. Kl. 2.19 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Gullinbrú í Reykjavík, sem við það hafnaði utan vegar og á ljósastaur. Snjóþæfingur og hálka var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 7.46 var bifreið ekið norður Grensásveg í Reykjavík, inn á gatnamót við Skeifuna/Fellsmúla, og á gangandi vegfaranda sem þveraði veginn. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.13 varð tveggja bíla árekstur á Bústaðavegi í Reykjavík, við gatnamót Bústaðavegarbrúar yfir Kringlumýrarbraut. Í aðdragandanum er annar ökumannanna talinn hafa ekið gegn rauðu ljósi. Sá var fluttur á slysadeild ásamt farþega, en hinn sami er einnig grunaður um ölvunarakstur.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.