Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Garðabæ.
22 Nóvember 2023 09:44

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. nóvember, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 12. nóvember kl. 16.05 var bifreið ekið vestur Kleppsmýrarveg í Reykjavík að gatnamótum Sæbrautar, en þar hugðist ökumaðurinn beygja til vinstri og aka suður Sæbraut. Í sama mund voru tveir, gangandi vegfarendur á leið yfir Sæbraut til vesturs, og logaði grænt gangbrautarljós fyrir gönguleið þeirra, en bíllinn hafnaði á þeim . Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa blindast af sólinni. Annar vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 13. nóvember kl. 12.55 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Garðabæ, við Arnarnesveg, og aftan á aðra bifreið, sem við það kastaðist á vegrið. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 14. nóvember. Kl. 8.37 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á gatnamótum Holtsvegar og Urriðaholtsstrætis í Garðabæ. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið austur Urriðaholtsstræti, áleiðis í hægri beygju inn á Holtsveg, en bifhjólinu var ekið á gangbraut þvert yfir Urriðaholtsstræti. Ökumönnunum bar ekki saman um stöðu umferðarljós þegar slysið varð. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild, af aðstandanda. Og kl. 16 tilkynnti slysadeild um vegfaranda, sem ekið var á í Skipasundi í Reykjavík. Aðstandandi flutti vegfarandinn á slysadeild og hafði ekki tilkynnt málið til lögreglu. Ökumaður bifreiðarinnar veitti aðstandanum helstu upplýsingar um sig og fór síðan af vettvangi, en viðkomandi tilkynnti ekki heldur um málið til lögreglu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 15. nóvember. Kl. 14.24 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli við Sólfarið við Sæbraut í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.26 varð tveggja bíla árekstur á Grensásvegi í Reykjavík, en þeim var ekið úr gangstæðri átt. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður götuna, en hinni suður og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri á gatnamótunum við Fellsmúla og aka hann til vesturs þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.