Frá vettvangi á gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar.
1 Nóvember 2023 11:13

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. október, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 22. október kl. 16.12 var ekið á gangandi vegfaranda í Bjarkarholti í Mosfellsbæ. Í aðdragandanum sagðist ökumaður bifreiðarinnar hafa blindast af sólinni. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 23. október kl. 16.12 féllu hjólreiðamaður og farþegi af rafmagnshlaupahjóli í Goðatúni í Garðabæ. Einn var fluttur á slysadeild, en viðkomandi var ekki með öryggishjálm.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 24. október. Kl. 12.15 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Vallarkór í Kópavogi. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Talið er að bunga í yfirborði göngustígsins eigi þátt í slysinu. Og kl. 22.37 var bifreið ekið á ljósastaur á Eyvindarstaðavegi í Garðabæ. Einn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 27. október kl. 14.18 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda sunnan við gatnamót Miðskóga og Skógarsels í Reykjavík. Í aðdragandanum sagðist ökumaður bifreiðarinnar hafa blindast af sólinni.Vegfarandinn var fluttur á slysadeild

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 28. október. Kl. 1.25 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Álfheimum í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 10.27 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Flugvallarvegar og Bústaðavegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var báðum bifreiðunum ekið um Bústaðaveg úr gagnstæðri átt, þegar annar ökumannanna beygði áleiðis inn á Flugvallarveg svo árekstur varð með þeim. Rannsókn lögreglu beinist að því hvort annarri bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.47 var vörubifreið ekið norður Reykjanesbraut í Reykjavík, við Bústaðaveg, og aftan á aðra bifreið, sem kyrrstæð á rauðu ljósi. Sú kastaðist við það áfram og hafnaði á bifreiðinni þar fyrir framan, sem var einnig kyrrstæð af sömu ástæðu. Ökumaður vörubifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Tveir voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.