3 Október 2023 14:45
Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. september, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 24. september. Kl. 2.55 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Hverfisgötu í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.17 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Dugguvogs og Kleppsmýrarvegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Kleppsmýrarveg, en hinni norður Dugguvog og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri á gatnamótunum og aka Kleppsmýrarveg til vesturs þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 26. september. Kl. 1.09 var bifreið ekið frárein á Bíldshöfða til vesturs að Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku og á vegrið sem þar er. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.15 varð árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á Njálsgötu í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni bakkað frá bifreiðastæði við götuna þegar rafmagnshlaupahjólið kom aðvífandi. Ökumaðurinn flutti hjólreiðamanninn, sem var ekki með örygishjálm, á slysadeild, en þaðan var tilkynnt um slysið.
Fimmtudaginn 28. september kl.13.43 var bifreið ekið á öryggisgirðingu, sem ver gönguþverun á miðeyju, á Arnarnesvegi í Garðabæ, við Arnarnesbrú. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 29. september. Kl. 12.25 var rafmagnshlaupahjóli ekið á gangandi vegfaranda á gangstétt við Miklubraut og Skaftahlíð í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn og vegfarandinn voru báðir fluttir á slysadeild. Kl. 17.16 var bifreið ekið frárein á Bústaðavegi í Reykjavík til suðurs að Kringlumýrarbraut og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð vegna umferðar. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 18.20 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á bifreiðastæði í Skeifunni í Reykjavík þegar hann prjónaði yfir sig. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.28 féll ökumaður af bifhjóli á göngustíg við Sunnubraut í Kópavogi. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 30. september. Kl. 1.32 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á hjólastíg meðfram Miklubraut við Klambratún í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 3.19 var rafmagnshlaupahjóli ekið á gangandi vegfaranda á gangstétt á mótum Hverfisgötu og Lækjargötu í Reykjavík. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Hjólreiðamaðurinn er grunaður um ölvun. Og kl. 14.15 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Skildinganes í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.