Frá vettvangi í Borgartúni.
10 Október 2023 15:45

Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í fjórtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. október, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 1. október. Kl. 1.41 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði, við Hverfisgötu. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 12.10 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á malarstíg í Gufunesi í Reykjavík, en hann var keppandi í hjólreiðakeppni sem þar fór fram. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.56 féll ökumaður af rafskútu þegar henni var ekið á kantstein við Kárastíg í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.17 var bifreið ekið austur Suðurhóla í Reykjavík og á reiðhjól á merktri gangbraut, sem var hjólað til suðurs frá Lóuhólum. Nærri vettvangi eru bílskúrar sem byrgja vegfarendum sýn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 2. október kl. 14.26 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á merktri gangbraut í Suðurhólum í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Ekki er vitað hver ók bifreiðinni.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 3. október. Kl. 10.07 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Kringlumýrarbraut, en hinn austur Borgartún. Vitni sagði fyrrnefndu bifreiðina hafa ekið gegn rauðu ljósi. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 12.20 varð árekstur bifhjóls og rafmagnshlaupahjóls á göngu- og hjólastíg í Flúðaseli við Kambasel í Reykjavík. Fjórir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 4. október. Kl. 8.56 var rafmagnshlaupahjóli ekið norður Snorrabraut í Reykjavík og í hlið bifreiðar, sem var  beygt af Snorrabraut áleiðis í Bríetartún. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.04 var bifreið ekið út af bifreiðastæði við Flugvallaveg í Reykjavík og á rafmagnshlaupahjól, sem var ekið á gangstétt vestur götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 5. október kl. 6.49 var bifreið ekið suður Suðurgötu í Reykjavík og á reiðhjól, sem var á merktri gangbraut við gatnamót Skothúsvegar. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 6. október kl. 14.32 var bifreið ekið austur Borgartún í Reykjavík og á ljósastaur við götuna, en ökumaðurinn var annars hugar í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 7. október. Kl. 0.29 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli þegar hann var á leið yfir gönguleið á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 11.10 varð þriggja bíla árekstur á gatnamótum Bústaðavegar og Háleitisbrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var einni bifreiðinni ekið austur Bústaðaveg gegn rauðu ljósi og á aðra, sem var ekið um Háleitisbraut, og við það kastaðist önnur bifreiðin á þá þriðju. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.22 hafnaði bifreið utan vegar við Kaldárselsveg í Hafnarfirði, skammt frá Sörlaskjóli, og á ljósastaur sem þar er við reiðveg. Ökumaðurinn, sem missti meðvitund í aðdraganda slyssins, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.