27 September 2023 14:45
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. september, en alls var tilkynnt um 40 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 17. september. Kl. 1.42 var bifreið bakkað á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði við Smáralind í Kópavogi. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 1.43 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík þegar hann hjólaði á kantstein. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis. Og kl. 10.46 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið í Stekkjarbakka, við Grænastekk, í Reykjavík, en við það kastaðist fyrrnefnda bifreiðin á vegrið og fór síðan niður grasbrekku og endaði þar á ljósastaur, sem er við göngustíg norðan Stekkjarbakka. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Þriðjudaginn 19. september kl. 15.22 fauk húsbíll út af Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, á móts við Enni, og hafnaði utan vegar. Tveir voru fluttir á slysadeild. Mikill vindur var á vettvangi.
Miðvikudaginn 20. september kl. 9.30 var bifreið ekið norður Njarðargötu í Reykjavík, í hægribeygjuvasa áleiðis austur Hringbraut, og á reiðhjól, sem var hjólað á göngu- og hjólastíg vestur Hringbraut, inn í beygjuvasa til þess að þvera gatnamótin. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. september. Kl. 12.20 var bifreið ekið vestur Laugaveg í Reykjavík, á móts við Laugaveg 176, og á rafmagnshlaupahjól á gangbraut. Að sögn vitna fór hjólreiðamaðurinn gegn rauðu gangbrautarljósi þegar slysið varð. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 15.58 varð tveggja bíla árekstur í Víkurgötu við Straumsvík í Hafnarfirði, en við það hafnaði önnur þeirra utan vegar. Frekari upplýsingar um atvik liggja ekki fyrir. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 17.08 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Reykjanesbraut í Kópavogi, á móts við Dalveg, en þeim öllum var ekið til suðurs. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Mikil umferð var á vettvangi þegar slysið varð. Og kl. 17.25 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngu- og hjólastíg við undirgöng í Mjódd í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 22. september kl. 18.40 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Geitlandi í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.