Frá vettvangi á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar.
10 Júlí 2023 14:13

Undanfarnar tvær vikur slösuðust tuttugu og þrír vegfarendur í fjórtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikurnar 25. júní – 8. júlí, en alls var tilkynnt um 55 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 25. júní kl. 0.57 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Fjarðarhrauns í Hafnarfirði. Einn var fluttur á slysadeild. Annar ökumannanna var handtekinn, grunaður um ölvunarakstur.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 27. júní. Kl. 15.30 hafnaði bifreið á ljósastaur við Þingvallaveg, við Roðamoða, og valt eina veltu. Þrír voru fluttir á slysadeild. Rannsókn beinist að því hvort ökumaðurinn hafi sofnað í aðdraganda slyssins. Og kl. 17.11 varð tveggja bíla árekstur í hringtorgi á gatnamótum Vesturlandsvegar og Korpúlfsstaðavegar í Reykjavík. Í aðdragandanum hugðist annar ökumannanna aka út úr hringtorginu, af innri hring, en hafnaði þá á bifreið sem var í ytrri hring, en ökumaður hennar, var ekki á leið út úr hringtorginu. Einn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 28. júní. Kl. 6.30 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á göngustíg á milli Rútstúns og Sundlaugar Kópavogs. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.37 hafnaði bifreið utan vegar við Elliðavatnsveg í Garðabæ (Flóttamannaleið) og valt þar nokkrar veltur. Fjórir voru fluttir á slysadeild. Rannsókn beinist að því hvort um glæfraakstur hafi verið að ræða.

Fimmtudaginn 29. júní kl. 13.52 féll ökumaður af bifhjóli í Bergstaðastræti í Reykjavík þegar köttur hljóp skyndilega í veg fyrir hjólið. Bifhjólamaðurinn ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Laugardaginn 1. júlí kl. 20.37 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, móts við bæinn Hvamm, en ökumaðurinn hennar hafið dregið verulega úr hraðanum. Í kjölfarið var svo þriðju bifreiðinni ekið á hinar tvær. Einn var fluttur á slysadeild og tveir ætluðu sjálfir að leita sér læknisaðstoðar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 2. júlí. Kl. 11.18 varð tveggja bíla árekstur á Melavegi, skammt frá Dísaborgum, í Reykjavík. Bifreiðunum var ekið úr gagnstæðri átt, en talið er að önnur þeirra hafi farið yfir á öfugan vegarhelming. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.47 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Laugavegi (göngugata) í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild, en sá hinn sami er grunaður um ölvunarakstur.

Mánudaginn 3. júlí kl. 13.43 var bifreið ekið frá bifreiðastæði við Suðurlandsbraut í Reykjavík, inn á götuna og í veg fyrir bifhjól sem var ekið suður Suðurlandsbraut svo árekstur varð með þeim. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 4. júlí kl. 15.34 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar í Reykjavík. Einn var fluttur á slysadeild. Talið er að veikindi hafi átt þátt í slysinu.

Miðvikudaginn 5. júlí kl. 22.41 missti ökumaður bifhjóls stjórn á því á Strandgötu í Hafnarfirði, við Suðurbraut, ók á vegkant og féll síðan af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 7. júlí. Kl. 20.29 missti ökumaður fjórhjóls stjórn á því á grasbala við Fögrukinn í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að hann og farþegi á hjólinu slösuðust, en báðir voru fluttir á slysadeild. Hvorugur var með öryggishjálm, en ökumaðurinn er jafnframt grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 21.04 missti ökumaður bifhjóls (krossari) stjórn á því á Elliðahvammsvegi í Kópavogi, rétt við Guðmundarlund. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.