Frá vettvangi í Dalaþingi.
29 Júní 2023 15:08

Undanfarnar tvær vikur slösuðust fjórtán vegfarendur í fjórtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikurnar 11. – 24. júní, en alls var tilkynnt um 39 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 11. júní. Kl. 6.51 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli þegar hann ók á gangbrautarkant á Sundlaugarvegi í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ölvaður, var fluttur á slysadeild. Kl. 16 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á mótum Miklubrautar og Grensásvegar í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ölvaður, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.22 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gangstétt við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ölvaður, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 12. júní kl. 7.34 var bifreið ekið á ljósastaur á Flugvöllum í Hafnarfirði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en slysið er rakið til veikinda hans.

Miðvikudaginn 14. júní kl. 7.37 var bifreið ekið á reiðhjól á Arnarnesvegi í Kópavogi, á milli Baugatorgs og Höfðatorgs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 16. júní. Kl. 9.53 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Jarpstjarnar og Gæfutjarnar í Reykjavík. Þarna er „hægri réttur“ sem annar ökumannanna virðist ekki hafa virt. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.24 var bifreið ekið út af bifreiðaplani við Bæjarflöt í Reykjavík og í veg fyrir aðvífandi bifhjól. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Sunnudaginn 18. júní kl. 3.48 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg á milli Suðurlandsbrautar og Laugardalshallar í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ölvaður, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 19. júní. Kl. 0.03 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli þegar hann hjólað í poll við Vesturhjalla í Kópavogi. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.29 var bifreið ekið yfir á öfugan vegarhelming í Dalaþingi í Kópavogi og framan á aðra bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en viðkomandi var einnig grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur. Og kl. 22.44 var bifreið ekið Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Jafnarsel, og utan í aðra bifreið og loks á ljósastaur. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en viðkomandi var sömuleiðis grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. júní. Kl. 10.23 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á gatnamótum Langholtsvegar og Holtavegar í Reykjavík. Í aðdragandanum er talið að bifreiðinni hafi verið beygt til vinstri inn Holtaveg og í veg fyrir bifhjólið. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.39 varð árekstur reiðhjóls og vespu á mótum Lækjargötu og Hringbrautar í Hafnarfirði. Ökumaður vespunnar ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Laugardaginn 24. júní kl. 12.48 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík, á móts við Blesugróf, og aftan á aðra bifreið, en hæg umferð var á vettvangi þegar slysið varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.