Frá vettvangi á mótum Lækjargötu og Brekkugötu.
11 Maí 2023 15:42

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. apríl – 6. maí, en alls var tilkynnt um 40 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 30. apríl kl. 4.49 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Drekavogi við Langholtsveg í  Reykjavík. Ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 2. maí. Kl. 13.23 var bifreið ekið norður Dalveg við Hlíðarhjalla í Kópavogi, en þar tók ökumaðurinn u-beygju og missti stjórn henni. Við það fór bifreiðin yfir steypta umferðareyju, sem aðskilur akstursstefnur, á öfugan vegarhelming og á aðvífandi bifreið. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 13.52 var bifreið ekið austur Breiðholtsbraut í Reykjavík, austan Stekkjarbakka, og aftan á aðra bifreið, sem var ekið sömu leið. Fyrri bifreiðin staðnæmdist þó ekki heldur fór yfir umferðareyju, sem aðskilur akstursstefnur, og utan í þriðju bifreiðina, sem kom úr gagnstæðri átt. Áreksturinn er rakinn til veikinda fyrsttalda ökumannsins. Allir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.49 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Strandgötu við Linnetsstíg í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 3. maí kl. 14.50 varð tveggja bíla árekstur á Fífuhvammsvegi í Kópavogi, við aðrein að Hafnfjarðarvegi til norðurs. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið Fífuhvammsveg til vesturs, en hinni austur sömu götu og hugðist ökumaður hennar taka vinstri beygju og aka aðreinin til norðurs. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 4. maí kl. 7.58 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á Kleppsvegi í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið austur Kleppsveg, en á gatnamótum við Dalbraut hugðist ökumaðurinn beygja til suðurs en hafnaði þá á hjólinu, sem var á leið til norðurs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 5. maí. Kl. 2.03 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Fríkirkjuvegi í Reykjavík, á móts við Fríkirkjuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 11.24 var bifreið ekið austur Lækjargötu í Hafnarfirði, en móts við Brekkugötu missti ökumaðurinn stjórn á henni. Bifreiðin fór þá utan í vinnustaðamerkingu, þaðan á ljósastaur og valt þar á hliðina utan í húsvegg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.24 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Reykjanesbraut í Garðabæ, á móts við IKEA, en þeim var öllum ekið í suðurátt. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. maí. Kl. 1.19 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Laugavegi í Reykjavík, rétt ofan við Hlemm. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.44 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á gangbraut í Hlíðarbergi við Setbergstorg í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.