27 September 2022 11:01
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. september, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 18. september kl. 3.59 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg í Sunnuhlíð í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 19. september kl. 10.05 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hringbrautar, Vatnsmýrarvegar og Hlíðarfótar í Reykjavík. Bifreið var ekið suður Vatnsmýrarveg og beygt áleiðis í vinstri beygju austur Hringbraut þegar hópbifreið var ekið norður Hlíðarfót inn á Hringbraut svo árekstur varð. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin, en ekki er varin vinstri beygja í ljósastýringunni. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 20. september. Kl. 8.19 var bifreið ekið á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli á ljósastýrðri gangbraut á Miklubraut við Klambratún í Reykjavík. Ökumaður bifreiðarinnar stöðvaði og hugaði að hinum slasaða, en fór síðan af vettvangi áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn. Ökumaður bifreiðarinnar fannst síðar, en hann er grunaður um fíkniefnaakstur. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.13 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á Álftanesvegi við Garðahraunsveg í Garðabæ. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið Garðahraunsveg inn á Álftanesveg, en á sama tíma var bifhjóli ekið Álftanesveg með fyrrgreindum afleiðingum. Biðskylda er fyrir umferð um Garðahraunsveg gagnvart umferð um Álftanesveg. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Ökumaður bifreiðarinnar hafði þegar verið sviptur ökuréttindum.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. september. Kl. 8.38 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls við gatnamót Flúðasels og Fjarðarsels í Reykjavík. Reiðhjólinu var hjólað eftir gangstétt meðfram Flúðaseli og inn á gagnamót Fjarðarsels í hlið bifreiðar, sem var ekið frá Fjarðarseli að Flúðaseli. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild af aðstandanda. Skjólveggur á lóðarmörkum byrgir sýn vegfarenda yfir gatnamótin. Kl. 12.48 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Höfðabakka og Dvergshöfða í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Höfðabakka, áleiðis í vinstri beygju vestur Dvergshöfða, þegar hinni var ekið suður Höfðabakka inn á gatnamótin með fyrrgreindum afleiðingum. Ekki er varin vinstri beygja í ljósastýringunni. Ökumönnunum bar ekki saman um stöðu umferðarljósanna þegar slysið varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 14.28 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á gatnamótum Lönguhlíðar og Háteigsvegar. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið suður Lönguhlíð inn á gatnamót Háteigsvegar, en vegfarandinn hljóp vestur yfir Lönguhlíð, frá Háteigsvegi, og í veg fyrir bifreiðina að sögn vitna. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.25 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Svöluhöfða í Mosfellsbæ. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 24. september kl. 12.38 var tilkynnt frá Landspítala um árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á Grensásvegi, við bifreiðastæði Hreyfils, í Reykjavík. Viðbragðsaðilar voru ekki kallaðir til, en hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild af aðstandanda. Haft var samband við ökumann bifreiðarinnar, sem sagðist í aðdragandanum hafa verið að aka út frá bifreiðastæði Hreyfils inn á Grensásveg með ætlaða akstursleið suður Grensásveg þegar hjólreiðamaður kom eftir gangstéttinni í norður að Fellsmúla með fyrrgreindum afleiðingum.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.