4 Ágúst 2022 12:40
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. júlí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 26. júlí. Kl. 14.41 var bifreið ekið á barn á Skólavörðustíg, en það hljóp út á götuna fram hjá mjög blindu horni að sögn vitnis. Barnið var flutt á slysadeild, en það var talið óbrotið. Kl. 19.11 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Bakkaflöt og hafnaði bifreiðin inn í garði við götuna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en hann gat lítið sagt um aðdraganda slyssins. Kl. 20 var bifreið ekið austur Miklubraut inn á beygjurein norður Kringlumýrarbraut og á gangandi vegfaranda sem fór austur yfir Kringlumýrarbraut norðan við gatnamótin, en þar eru gangbrautarljós í ljósastýringu gatnamótanna. Mikil rigning var á vettvangi og birtuskilyrði slæm. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.35 var bifreið ekið vestur Vífilsstaðaveg inn á gatnamót Bæjarbrautar þegar annarri bifreið var ekið austur Vífilsstaðaveg og beygt í vinstribeygju norður Bæjarbraut svo árekstur varð með þeim. Á ljósastýringu gatnamótanna logaði grænt ljós fyrir umferð um Vífilsstaðaveg í báðar akstursáttir, en ekki er varin vinstri beygja í ljósastýringunni á þessum stað. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 27. júlí kl. 20.43 var bifreið ekið á ljósastaur á Hringbraut í Hafnarfirði. Ökumaðurinn var utangátta og gat lítið sagt um aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 30. júlí. Kl. 3.24 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á hjólastíg norðan við Suðurlandsbraut. Hann gat lítið sagt um aðdraganda slyssins. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 17.52 féll farþegi út úr bifreið á hringtorgi á Reykjanesbraut við Lækjargötu. Farþeginn var fluttur á slysadeild. Kl. 19.35 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Sæbraut, ofan við Vatnagarða. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis. Og kl. 21.41 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Laugavegi. Hann kvaðst hafa sveigt frá bifreið sem kom úr gagnstæðri átt í aðdraganda slyssins. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.