4 Maí 2022 10:28
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. apríl, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 24. apríl kl. 14.40 var bifreið ekið austur Galtalind, áleiðis inn á gatnamót Hlíðardalsvegar, þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað norður á göngustíg við Hlíðardalsveg inn á gatnamót Galtalindar. Hjólreiðamaðurinn hjólaði á aftanverða hægri hlið bifreiðarinnar og féll hann með hjólinu í götuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Við vettvang eru háar skjólgirðingar, sem byrgja verulega sýn vegfaranda á nærumhverfi gatnamótanna.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 27. apríl. Kl. 17.57 var bifreið ekið norður Herjólfsgötu og beygt til vinstri að Hrafnistu, en í sömu mund var reiðhjóli hjólað suður Herjólfsgötu og féll reiðhjólamaðurinn með hjólinu í götuna. Ekki varð árekstur með þeim, en reiðhjólamanninum og ökumanni bifreiðinnar bar saman um að bifreiðinni hefði verið ekið í veg fyrir hjólamanninn. Sá síðastnefndi var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.25 var bifreið ekið vestur Miklubraut inn á gatnamót Lönguhlíðar þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað norður Lönguhlíð og þveraði Miklubraut á gangbrautarhluta gatnamótanna svo árekstur varð með þeim. Umferðarljós stýra umferð um gantamótin og er talið að grænt ljós hafi logað fyrir akstursstefnu vestur Miklubraut og rautt ljós fyrir akandi og gangandi vegfarendur norður/suður Lönguhlíð. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 29. apríl. Kl. 8.11var reiðhjóli hjólað Selvogsgötu og ætlaði hjólreiðmaðurinn að beygja við Ölduslóð. Hann rétti út hægri hönd fyrir merki um beygju og ætlaði að draga úr ferð með því að hægja ferð sína með því að þrýsta vinstri hönd á hemlabúnað. Þá vildi ekki betur til en að hann hemlaði of fast með aðra hönd á stýri og féll fram fyrir sig af hjólinu. Hjólreiðmaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.22 var bifreið ekið suður Fjarðarhraun að Hjallahrauni og þar aftan á bifreið fyrir framan, sem var nánast kyrrstæð vegna umferðar á undan. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 30. apríl kl. 19.12 var rafmagnshlaupahjóli hjólað vestur gangstétt við Bríetartún þegar bifreið var bakkað frá bifreiðastæði við húsið og varð árekstur með þeim. Ökumaður bifreiðarinnar ók af vettvangi án þess að stöðva og/eða kanna með hjólreiðarmanninn og farþega á hjólinu. Þeir, sem báðir voru með öryggishjálm, voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.