28 Mars 2022 16:13
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. mars, en alls var tilkynnt um 15 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 20. mars kl. 12.43 var fjórhjóli ekið vegslóða meðfram Leirvogsá á móts við Kistufell þar sem ökumaður kvaðst hafa ekið fram af snjóhengju, en við það hefði hjólið oltið og hafnað út í Leirvogsá. Ökumaður og farþegi, sem var á hjólinu, komust báðir af sjálfsdáðum upp úr ánni en kenndu meiðsla. Þeir voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 21. mars kl. 23.31 var bifreið ekið suður Höfðabakka við Höfðabakkabrú þar sem ökumaður missti stjórn á henni og hafnaði bifreiðin framan á upphafi vegriðs sem skilur að akstursleiðir. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Þriðjudaginn 22. mars kl. 18.24 var bifreið ekið vestur Miklubraut að Stakkahlíð þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni. Að sögn ökumanns virkuðu ekki hemlar bifreiðarinnar eftir að hann skipti af hægri akrein yfir á vinstri akrein. Bifreiðinni var ekið upp á umferðareyju og í gengum girðingu sem aðskilur akstursleiðir þar sem hún staðnæmdist á götuvita fyrir gangbrautarljós. Að sögn vitna var bifreiðinni ekið frekar greitt og framúr annarri umferð áður en slysið varð. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 26. mars kl. 20.23 var bifreið ekið vestur Suðurlandsbraut og inná gatnamót Vegmúla, en í sömu mund var gangandi vegfarandi að þvera suður yfir Suðurlandsbraut á gangbraut við gatnamótin. Bifreiðinni var ekið utan í vegfarandann svo hann féll í götuna, en bifreiðinni var ekið viðstöðulaust áfram vestur Suðurlandsbraut þar sem ökumaður fór af vettvangi. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin, en að sögn vitna var bifreiðinni ekið á mikilli ferð móti rauðu umferðarljósi sem var fyrir akstursstefnu vestur/austur Suðurlandsbraut, en grænt ljós logaði fyrir gangandi vegfarendur austur/norður yfir Suðurlandsbraut. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.