8 Mars 2022 13:16
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. febrúar – 5. mars, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. febrúar. Kl. 15.19 var bifreið ekið frá bifreiðastæðum við Bónus á Smáratorgi og á gangandi vegfaranda, sem gekk frá Bónus suður yfir akstursleið að bifreiðastæðum á torginu. Ökumaðurinn kvaðst aldrei hafa séð vegfarandann fyrr en eftir að hann stöðvaði bifreiðina og opnaði bílstjórahurðina. Vegfarandinn, sem var fluttur á slysadeild, taldi að ökumaður hafi ekki séð til ferða hans þegar hann gekk yfir akstursleiðina þar sem framrúða bifreiðarinnar hafi verið illa snjóhreinsuð. Snjór, krapi og slabb var á vettvangi. Og kl. 22.53 var bifreið ekið austur Suðurlandsbraut á vinstri akrein, en ökumaður skipti snögglega yfir á hægri akrein með fyrirhugaða hægri beygju inn á frárein suður Grensásveg þegar hann missti stjórn á bifreiðinni, en hálka var á veginum. Bifreiðin rann áfram á tvær bifreiðar fyrir framan, sem höfðu stöðvað við gatnamótin þar sem að rautt ljós hafði kviknað á götuvitum fyrir aksturstefnu þeirra austur Suðurlandsbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 1. mars. Kl. 11.57 var bifreið ekið suður Nóatún með fyrirhugaða vinstri beygju austur Laugarveg, þegar annarri bifreið var ekið vestur Laugaveg inn á gatnamótin og varð árekstur með bifreiðunum. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin, en að sögn vitna logaði rautt ljós fyrir umferð vestur/austur Laugaveg og grænt ljós fyrir umferð suður/norður Nóatún þegar áreksturinn varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.28 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut, en á móts við Kaldárselsveg missti ökumaður stjórn á bifreiðinni svo hún fór að rása til á veginum og bifreiðin valt á toppinn. Ökumaðurinn, sem hafði þegar verið sviptur ökuleyfi, var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um fíkniefna- og lyfjaakstur.
Miðvikudaginn 2. mars kl. 17.38 var bifreið ekið vestur Miklubraut inn á gatnamót Háaleitisbrautar þegar annarri bifreið var ekið norður Háaleitisbraut inn á gatnamótin og varð árekstur með bifreiðunum. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Umferð um gatnamótin er stýrt með umferðarsljósum og að sögn vitna var grænt ljós fyrir umferð vestur Miklubraut, en rautt ljós fyrir umferð norður/suður Háaleitisbraut.
Fimmtudaginn 3. mars kl. 7.10 var tilkynnt um mjög rásandi aksturslag bifreiðar, sem ekið var suður Reykjanesbraut við Smáralind í Kópavogi í átt að Hafnarfirði. Síðan var tilkynnt um að bifreiðinni hafi verið ekið framan á vörubifreið og umferðarslys orðið á Hringhellu við Hraunhellu. Ökumaðurinn, sem er grunaður um vímuefna- og lyfjaakstur, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.