27 Október 2021 15:42
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. október, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 18. október kl. 23.28 var bifreið ekið norður Bláfjallaveg, nærri skíðsvæði höfuðborgarsvæðisins, þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún endaði utan vegar. Ökumaðurinn og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Þriðjudaginn 19. október kl. 15.31 var bifreið ekið vestur Miklubraut í átt að Grensásvegi og þar aftan á bifreið fyrir framan sem hafði stöðvað vegna umferðar. Sú kastaðist áfram á þriðju bifreiðina þar fyrir framan. Ökumaður fyrsttöldu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 20. október. Kl. 14.41 var bifreið ekið suður Katrínartún, að Bríetartúni, þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað austur Bríetartún inn á Katrínartún og þar í hægri hlið bifreiðarinnar. Gatnamótin þrengjast við vegamótin vegna hárrar trégirðingar sem girðir af byggingarsvæði við gatnamótin og byrgir hún nokkuð sýn um vegamótin. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.51 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg á vinstri akrein í átt að hringtorgi við Lambhagaveg og aftan á aðra, sem við það kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Einn ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. október. Kl. 8.39 var bifreið ekið vestur Starmýri, áleiðis í hægri beygju norður Álftamýri, þegar reiðhjóli var hjólað norður Álftamýri og varð árekstur með ökutækjunum. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.21 var bifreið ekið Laugaveg á móts við hús nr. 37, en þar er merkt göngugata. Þar var bifreiðinni var ekið utan í gangandi vegfaranda en ökumaður stöðvaði ekki heldur ók burtu af vettvangi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Eftir skoðun í öryggismyndavélakerfi tókst að hafa uppi á ökumanninn, en sá sagðist ekki hafa orðið þess var að hafa ekið utan í vegfarandann.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.