4 Október 2021 16:04
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. september – 2. október, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 27. september kl. 12.03 var tilkynnt um umferðarslys við innkeyrslu að Domino´s á Hjarðarhaga 45. Þar var rafmagnshlaupahjóli hjólað á gangstíg vestur Hjarðarhaga og í hlið bifreiðar, sem var ekið frá Domino´s. Aðstandandi kom hjólreiðamanninum undir læknishendur. Blindhorn er á vettvangi.
Þriðjudaginn 28. september kl. 16.22 var bifreið ekið norður Hofsstaðabraut, inn á Bæjarbraut, þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað vestur gangstíg yfir merkta gangbraut/hraðahindrun svo árekstur varð með þeim. Hjóreiðamaðurinn ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 1. október. Kl. 18.38 var bifreið ekið vestur Suðurnesveg við Breiðamýri, inn á merkta gagnbraut, þar sem reiðhjóli var hjólað suður yfir gangbrautina svo árekstur varð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.35 var bifreið ekið um athafnasvæði eldsneytistöðvar Atlantsolíu á Sprengisandi við Reykjanesbraut og þar á eldsneytisdælu. Ökumaður kvaðst hafa verið að aka að dælu til þess að taka eldsneyti þegar hann missti stjórn á bifreiðinni og ók á dæluna. Ökumaður og farþegi, sem var í bifreiðinni, voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 2. október. Kl. 18 var bifreið ekið vestur Hólaveg, áleiðis inn á gatnamót Hjallavegar, þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað suður Hjallaveg eftir gagnstétt, sem liggur austan við veginn, og lenti hjólið í hægri hlið bifreiðarinnar. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.46 var bifreið ekið vestur Vesturhóla þar sem ökumaður missti stjórn á bifreiðinni og hafnaði hún á ljósastaur. Frá ljósastaurnum ók ökumaður síðan áfram og inn í Gaukshóla þar sem bifreiðin staðnæmdist óökufær. Þrír aðilar voru fyrir utan bifreiðina þegar á vettvang var komið, en ekki liggur ljóst fyrir hver var ökumaður hennar. Þremenningarnir, sem eru grunaðir um ölvunar- og fíkniefnakstur, voru fluttir á slysadeild og síðan í fangageymslu.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.