27 Júlí 2021 11:59
Í síðustu viku slösuðust þrír vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. júlí, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 18. júlí kl. 1.52 var rafhlaupahjóli ekið um Laugaveg við gatnamót Rauðarárstígs þegar ökumaður féll af hjólinu og hlaut hann höfuðhögg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 21. júlí kl. 9.33 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut og beygt frárein/aðrein austur Háaleitisbraut. Rafhlaupahjóli var ekið norður gangstétt austan með Kringlumýrarbraut inn á gönguleið/“gangbraut“ sem þverar akbraut frá Kringlumýrarbraut austur Háaleitisbraut og hjólaði hjólreiðamaðurinn í hlið bifreiðarinnar. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild, en sá sagðist hafa verið með heyrnartól á höfði og verið að hlusta á tónlist og því hafi hann ekki heyrt þegar bifreiðin nálgaðist.
Fimmtudaginn 22. júlí kl. 18 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg að gatnamótum Hvalfjarðarvegar þegar annarri bifreið var ekið frá Hvalfjarðarvegi inn á Vesturlandsveg svo árekstur varð með bifreiðunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.