10 Ágúst 2020 11:34
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. ágúst, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 3. ágúst kl. 10.28 var bifreið ekið suður Höfðabakka að vegamótum Bæjarháls og aftan á aðra, en ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði stöðvað á rauðu ljósi. Ökumaðurinn sem á eftir kom var að nota farsíma án handfrjáls búnaður og hafði litið af veginum í aðdragandanum, en hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 5. ágúst. Kl. 15.05 varð þriggja bíla aftánkeyrsla á Fjarðarhrauni við vegamót við Hólshraun. Í aðdragandanum var ökumaður aftasta bílsins að setja farsíma í hleðslu og leit þá af veginum. Bíll hans hafnaði á bílnum fyrir framan, sem við það kastaðist áfram á þann þriðja, sem hafði numið staðar á rauðu ljósi. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild, en þriðji ökumaður ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar. Og kl. 15.06 var rafhlaupahjóli hjólað úr Bröttukinn og í hlið bifreiðar, sem var ekið eftir Hringbraut. Tveir ungir piltar voru á rafhlaupahjólinu og voru báðir fluttir á slysadeild.
Fimmtudaginn 6. ágúst kl. 17.02 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg og á aðra, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi við gatnamót Réttarholtsvegar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 6. ágúst kl. 0.10 var léttu bifhjóli ekið frá Lokinhömrum og inná gatnamót Gullinbrúar og í hlið bifreiðar, sem var ekið suður Gullinbrú. Ökumaður og farþegi á hjólinu voru fluttir á slysadeild. Grunur er um að bifhjólinu hafi verið ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótunum.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.