4 Apríl 2013 12:00
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í þremur umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Í einu þessara slysa féll hjólreiðamaður af hjólhesti sínum og í öðru var ekið á unga stúlku á rafmagnsvespu. Þriðja slysið varð vegna aftanákeyrslu á ljósastýrðum gatnamótum.
Lögreglan hvetur ökumenn enn sem fyrr til að gæta vel að sér nú þegar hlýnar í veðri og gera má ráð fyrir aukinni umferð reiðhjólamanna. Sýnum hvert öðru tillitssemi í umferðinni, förum varlega og tryggjum þannig að öll komumst við heil heim.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:
Þriðjudaginn 26. mars um hádegi féll hjólreiðamaður í beygju við Bríetartún og Rauðarárstíg. Sprungið hafði á framhjólbarða reiðhjólsins með þessum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Fimmtudaginn 28. mars rétt eftir hádegi var bifreið ekið út af bifreiðastæði við Meistaravelli og á unga stúlku á rafmagnsvespu er ók eftir gangstétt framan við bifreiðastæðið. Hún var flutt á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur ökumanns bifreiðarinnar.
Sunnudaginn 31. mars um klukkkan níu að morgni var ekið aftan á kyrrstæða bifreið við rautt ljós á gatnamótum við Breiðholtsbrú. Ökumenn beggja bifreiðanna voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur og of hraður akstur.