3 September 2019 14:54
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. ágúst, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 25. ágúst kl. 2.28 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut og á tvær bifreiðar, sem voru kyrrstæðar við rautt á gangbrautarljós á móts við Hamrahlíð. Tjónvaldur er grunaður um ölvunar- og lyfjaakstur. Tveir voru fluttir á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 26. ágúst. Kl. 7.56 missti ökurmaður á leið suður Fjarðarhraun stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 11.47 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á neðra bifreiðastæði í Kringlunni með þeim afleiðingum að hún hafnaði á húsvegg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 18.28 missti ökumaður vespu stjórn á henni á leikvelli við Foldaskóla með þeim afleiðingum að vespan féll í götuna. Ökumaður og farþegi voru báðir með hjálm, en sá síðarnefndi var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.52 var bifreið ekið aftan á strætó á Arnarnesvegi, nærri Salarlaug. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 27. ágúst. Kl. 12.50 hjólaði reiðhjólmaður á gangandi vegfaranda á mótum Hverfisgötu og Frakkastígs. Gangandi vegfarandinn, sem féll í götuna við áreksturinn, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.51 varð árekstur með bifreið, sem var ekið frá bifreiðastæði við Sogaveg, og vespu. Tveir voru á vespunni og voru báðir fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn hennar var með hjálm, en farþeginn ekki.
Miðvikudaginn 28. ágúst kl. 18.32 varð árekstur með bifreið, sem var ekið frá bifreiðastæði í Hraunbæ, og reiðhjóli, en gangstétt þverar inn/útkeyrsluna sem þarna er. Ökumaðurinn bar við að veggur sem þarna er hefði byrgt honum sýn. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 29. ágúst kl. 13.38 varð tveggja bíla árekstur í hringtorgi á mótum Fífuhvammsvegar og Dalsmára þegar ökumaður bifreiðar á innri akrein ætlaði út úr hringtorginu og hafnaði á bifreið á ytri akrein. Við áreksturinn valt önnur bifreiðin og var ökumaður hennar fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.