11 Apríl 2013 12:00
Í síðustu viku slösuðust 10 vegfarendur í sjö umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Í tveimur tilvikum var um ógætilega vinstri beygju að ræða á gatnamótum og aftanákeyrslu í öðrum tveimur. Þá var ekið á gangandi vegfaranda í tveimur tilvikum og í einu féll ökumaður af bifhjóli sínu og slasaðist.
Lögreglan bendir á að það er í höndum vegfarenda sjálfra að koma í veg fyrir slys í umferðinni enda má rekja flest slysin til ákvarðana sem þeir taka. Hún hvetur því til að þeir gæti að sér, sýni tillitssemi, aðgæslu og kurteisi í umferðinni þannig að þeir valdi ekki öðrum slysum eða verði fyrir þeim sjálfir.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:
Þriðjudaginn 2. apríl um klukkan 17 var bifreið ekið á móti rauðu ljósi á Sæbraut við Höfðatún og lenti á bifreið sem var í vinstri beygju á grænu ljósi. Bifreiðin sem ekið var á móti rauðu ljósi, hvers ökumaður er talinn hafa verið ölvaður, lenti svo á þriðju bifreiðinni sem var kyrrstæð á rauðu ljósi við Höfðatún. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ölvunar við akstur.
Fimmtudaginn 4. apríl um klukkan 9 ók ölvaður ökumaður aftan á kyrrstæða bifreið í röð bifreiða á Fjallkonuvegi. Sú bifreið kastaðist áfram og á þá þriðju. Þrír voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ölvunar við akstur.
Fimmtudaginn 4. apríl um klukkan 23 var bifreið beygt til vinstri á gatnamótum Þúsaldarvegar og Víkurvegar og í veg fyrir bifreið er kom úr gagnstæðri átt. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegrar vinstri beygju á gatnamótum.
Aðfaranótt föstudagsins 5. apríl um klukkan 2 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og aftan á bifreið á leið í sömu átt. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur hægur akstur ökumanns fremri bifreiðarinnar og ógætilegur of hraður akstur ökumanns bifreiðarinnar er á eftir kom.
Föstudaginn 5. apríl um klukkan 16 var rafmagnsvespu ekið á unga stúlku á gangstétt við íþróttahúsið Ásgarð. Stúlkan var flutt á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er of hraður ógætilegur akstur ökumanns á gangstétt.
Laugardaginn 6. apríl um klukkan 13 var bifreið bakkað á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði Hagkaupa við Litlatún. Sá leitaði aðhlynningar á slysadeild. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs ökumanns.
Sunnudaginn 7. apríl um klukkan 17 missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjóli sínu á Norðurhellu og féll í götuna. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður.