15 Apríl 2019 12:58
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. apríl.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 8. apríl. Kl. 11.59 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á göngustíg við Varmárskóla. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 12.23 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Bæjarhrauns og Vífilsstaðavegar. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 12.26 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á afrein Bústaðavegar inn á Hringbraut. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.14 var bifreið ekið norður Álfheima og aftan á mannlausa bifreið gegnt húsi nr. 25. Ökumaðurinn, sem hafði fengið aðsvif við aksturinn var, fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 10. apríl kl. 0.18 var bifreið ekið austur Kaldárselsveg og út úr beygju austan Kaplaskeiðs. Ökumaðurinn fór sjálfur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 12. apríl. Kl. 12.45 varð drengur á leið yfir Fjallkonuveg frá Foldaskóla fyrir bifreið, sem var ekið af stað inn á götuna frá útskoti gegnt skólanum. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 13.48 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Nýbýlavegi til austurs við gönguljós, sem þar eru. Farþegi í öftustu bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.07 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut á vinstri akrein og utan í vinstri hlið bifreiðar, sem var ekið samhliða henni sunnan gatnamóta Suðurlandsbrautar. Ökumaður og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 13. apríl kl. 0.29 féll farþegi fólksflutningabifreiðar úr sæti sínu þegar henni var snögghemlað á Skothúsvegi við Sóleyjargötu. Farþeginn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.