11 Febrúar 2019 08:53
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. febrúar.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 3. febrúar. Kl. 1.08 var bifreið ekið austur Norðurgrafarveg þar sem hún valt utan vegar nálægt Esjumelum. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 14.15 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut, aftan á bifreið skammt sunnan Hamrabergs og síðan út fyrir veg. Ökumaðurinn, sem grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.42 var bifreið ekið austur Rofabæ og framan á bifreið, sem var ekið í gagnstæða átt við Melbæ. Ökmaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Hann, ásamt hinum ökumanninum og tveimur farþegum, var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 7. febrúar kl. 13.48 var vörubifreið ekið vestur Vesturlandsveg, á kyrrstæða bifreið við vegaöxlina undir Suðurlandsvegi og síðan á ljósastaur. Ökumaður kyrrstæðu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 9. febrúar kl. 13.46 var bifreið ekið suður Fjallkonuveg og á ljósastaur við Jöklafold. Ökumaður, sem grunaður er um akstur undir áhrifum lyfja og áfengis, og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.